top of page
Geðvernd í raun

 

Morgunblaðið

3. júní 2006

eftir Pál Eiríksson lækni

 

VIÐ hittum þau, sjáum eða heyrum dag hvern. Þetta getur verið vinur, vinnufélagi eða einhver sem við af tilviljun mætum í búðinni, á götu úti eða í vinnunni.

 

Erfiðast er kannski að hitta þau fyrir á okkar eigin heimili - kærustu, maka, foreldri og ekki síst barn.

 

Hér á ég við einstaklinga, sem eiga við sálarsársauka að stríða, sársauka sem kemur fram í kvíða, angist, þunglyndi, sorg eða jafnvel geðveiki.

 

Þessir einstaklingar hafa lent í áfalli í lífinu, vá sem hefur orsakað þessi viðbrögð og þeir eiga í miklum vanda með að ráða við. Oft er um að ræða afleiðingar af slysi,

stórslysi, náttúruhamförum, ofbeldi, misnotkun, dauða

eða alvarlegum sjúkdómi. Öll getum við lent í þessu og rannsóknir sýna að allt að 75% okkar geti átt við geðræn vandamál að stríða einhvern tíma á lífsleiðinni.

 

Hvernig mætum við svo þessum einstaklingum, sem eiga við innri vandamál að stríða. Við slíkar aðstæður gerist auðvitað eitthvað innra með okkur. Flestir reyna að leyna sínum innri vandamálum fyrir öðrum. Því miður eigum við erfiðara með að sýna hug okkar og tilfinningar gagnvart þeim sem líður illa andlega en þeim sem fótbrotna eða fá magasár, þ.e. líkamlegan sjúkdóm. Viðbrögð okkar eru mjög mismunandi eftir aðstæðum, einstaklingnum sem í hlut á og hvernig við sjálf erum.

 

Flestir einstaklingar sem eiga við geðræn vandamál að stríða æskja aðstoðar, vilja geta tjáð sig en þora ekki eða hafa ekki kraft til þess. Okkur finnst þeir kannski bregðast einkennilega við. Ef til vill forðast þeir að ræða vanda sinn, tala kannski óskiljanlega eða samhengislaust. Þessir einstaklingar einangra sig oft og loka dyrunum á þau tengsl, sem þeir helst óska sér.

 

Frá Íslendingasögum okkar má sjá að það virtist ekki nein skömm að því að bera með sér innri sorg. Um það eru mörg dæmi sjá t.d. „Sonatorrek Egils Skallagrímssonar“.

 

Í dag hafa fjölskyldubönd fyrri tíma rofnað, „stórfjölskyldan“ er varla til lengur. Tölvur, sjónvarp, myndbönd o.fl. hafa komið í stað samræðna, sagna og ævintýra milli foreldra, barna og afa og ömmu, Borðhald er víða ekki lengur sá vettvangur samskipta innan fjölskyldunnar sem var. Allt þetta veldur því að við eigum erfitt með að takast á við erfiðleika annarra. Hvað gerum við þegar vinnufélaga líður greinilega illa? Reynum við
að tala við hann eða jafnvel að heimsækja hann. Reynum við ef til vill fremur að forðast hann og hans veiku tilraunir til sambands? Oft vitum við ekki hvað við eigum að segja í stað þess að segja við séum til staðar og viljum hjálpa „ef þú vilt“.

 

Því miður er það svo nú á dögum að margir sitja einir í herbergjum eða íbúðum án þess að hafa nokkurn að tala við, sem gæti hjálpað þeim í gegnum andlega erfiðleika. Þetta getur orðið til þess að leitað er til geðlækninganna. Oft er það svo að sú hjálp kemur of seint, vandamálið er orðið langvarandi innan fjölskyldu og vinahóps. Því miður hafa geðlæknar ekki heldur átt auðvelt með að sjá að það er ekki bara einn einstaklingur
sem á hjálp þarf að halda heldur öll fjölskyldan.

 

Í þjóðfélagi okkar í dag eru margir brestir, sem verða til þess að einstaklingar gleymast, falla milli stóla og fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa og eiga kröfu til. Ef við lítum bara á skólagöngu okkar, oft langa, efa ég að margir telji sig hafa fengið „menntun“ í að vera manneskja, sýna tilfinningar, vera vinur, maki, foreldri eða barn.

 

Til þess að aka bifreið sem getur verið hættulegt morðtól, þurfum við kennslu og verðum að standast próf. En er þess krafist af okkur að við lærum að sýna tilfinningar, t.d. í hjónabandi eða foreldrahlutverki? Er þetta eitthvað sem breyta má? Hvað gerir þú, hvað geri ég?


Höfundur er læknir.

 

bottom of page