top of page
Ég er nagli og hlusta ekki á
neitt væl um þunglyndi...

 

 

Morgunblaðið

11. febrúar 2007

eftir Eddu Jóhannsdóttur

 

 

...eða þangað til ég upplifði það sjálf og neyddist til að leita mér hjálpar – þegar til kom var engin skömm að því ...
 

 

 

 

 

 



Ég sit á biðstofu heimilislæknisins og renni augum yfir lesefnið á borðinu. Þar eru öll nýjustu slúðurblöðin, svo og Hjemmet og sænska Allt för damerna. Frábært.
Ég sópa til mín nokkrum blöðum og byrja að fletta en hendi svo bunkanum frá mér. Ég hef ekki eirð, áhuga eða nennu til að lesa. Ég horfi í staðinn upp í loftið og velti fyrir mér hvað ég eigi að segja lækninum. Þegar ég er kölluð inn er ég engu nær.

Læknirinn (glaðlega): Sæl og blessuð. Hvað get ég gert fyrir þig?
Ég (annars hugar): Ég veit það eiginlega ekki.
Veistu það ekki. Finnurðu einhvers staðar til?
Nei, eiginlega ekki. Ég bara alltaf svo döpur og þreytt.
Vandamál heima fyrir eða í vinnunni?
Nei, ekki þannig, bara þetta venjulega, stress og fjárhagsáhyggjur.
Ertu dugleg að hreyfa þig?
Nei.
Kannski það myndi hressa þig við, göngutúrar og sund.
Örugglega.
Eigum við ekki að taka blóðprufu og sjá svo til?
Jú, er það ekki bara.
Nei, það er andskotann ekkert að mér nema ef vera skyldi leti.

Leti og ómennska


Ég fer með tilvísun á rannsóknarstofuna sem dælir úr mér blóði með erfiðismunum. Æðarnar eru svo þröngar að blóðið í mér hnígur varla. Meinatækninum tekst að ná tilskildu magni og bendir á að blóðið sé alltof dökkt. Það séu sennilega reykingarnar. Ég ákveð að vera fyndin og segja honum að ég sé með blátt blóð, en honum stekkur ekki bros. Niðurstöður liggja fyrir innan tíðar.
Það er allt í lagi með blóðið, segir doktorinn, þú þarft sennilega bara að fá þunglyndislyf.
Já, er það? Ég vissi svo sem að það væri andskotann ekkert að mér.
Vil ekkert, langar ekkert, bara sofa
Ég sæki lyfin, tek ráðlagðan dagskammt og bíð eftir gleðinni. Hún lætur á sér standa. Mér líður hvorki vel né illa, er flöt og enn neikvæð og döpur.
Það er skipt um lyf nokkrum sinnum en depurðin yfirgefur mig ekki. Hvar er eftirvæntingin sem greip mig svo oft forðum, tilhlökkunin og hláturinn? Ég finn það hvergi og missi meira að segja hæfileikann til að hrífast, grenja ekki lengur yfir sorglegum bíómyndum eða fallegri tónlist, hef lítinn sem engan áhuga á öðru fólki og vil helst bara vinna og sofa.
Læknirinn botnar ekkert í þessari tregðu. Ég ætti að kætast við lyfin, segir hann. Spyr svo hvort það sé örugglega ekkert sem ég segi honum ekki.
Nei, ekki þannig, segir ég.

Fjármálaóreiða eða eignaupptaka?


Ég segi honum auðvitað ekki að ég sé búin að ströggla fjárhagslega í mörg ár. Að ég hafi keypt íbúð '83 og að ég og maðurinn minn, sem bæði unnum fulla vinnu, hefðum ekki náð að halda íbúðinni. Það var á þeim tíma þegar giftar konur borguðu fullt gjald fyrir gæslu barna sinna og við vorum með fjögur börn. Mín laun fóru því í skatta og barnapössun. Á endanum voru skuldirnar okkar langtum hærri en íbúðarverðið svo íbúðin var seld nauðungarsölu. Það sem við höfðum lagt í íbúðina var horfið. Skuldunum skiptum við hjónin jafnt þegar hjónabandið hrundi. Lögfræðingurinn sem var okkur innan handar benti á gríðarlegar möppur í hillunum hjá sér og sagði okkur að þetta væru allt mál fólks í jafn vondum málum og við, jafnvel miklu verri.
Huggun, við vorum þá ekki þau einu sem kunnum ekki fótum okkar forráð í fjármálum.
Gálgahúmor til að halda lífi
Eftir skilnaðinn fékk ég leigt hjá Félagsbústöðum og tókst að koma öllu í skil. Allt var á hreinu þangað til ég fæ þá brilljant hugmynd að láta gamlan draum rætast og fara í nám til Englands. Ég pakka niður og fer á námslánum í útlandið og tek markaðskjaralán fyrir skólagjöldum.
Þar til í lok seinna ársins í Englandi tekst mér að halda í horfinu en svo fer að halla undan fæti, þrátt fyrir aukavinnu á golfhóteli í námunda skólans og eldhússtörf í heimavist rétt hjá.
Ég kem heim með talsvert í vanskilum og þegar ég fæ vinnu er það hjá fyrirtæki sem borgar eftir dúk og disk.
Þegar lögfræðibréfin fara að hrannast upp rifja ég upp söguna af manninum sem hafði þann háttinn á að setja öll lögfræðibréf í kassa og draga svo eitt bréf úr kassanum á mánaðamótum. Einn lánardrottna hans var með múður út af þessu en fékk snarlega að vita að ef hann væri ekki til friðs yrði hann ekki með í næsta drætti. Rosalega þótti mér þetta fyndið. Ég er nefnilega svo mikill nagli.

Réttdræp fyrir aulaháttinn


Þegar ég ætla hins vegar að fara í samningaviðræður við eigin lögfræðinga eru þeir harðir sem stál og bankinn minn sem er búinn að fá nóg af mér neitar að hjálpa mér upp úr pyttinum. Ég sé því ekki annan kost í stöðunni en leita á náðir Félagsþjónustunnar. Borgarfulltrúi Vinstri grænna, sem ég fæ að lokum viðtal við, hristi höfuðið fullur vandlætingar, talar niður til mín og spyr hvort ég haldi að Félagsþjónustan sé einhver lánastofnun?
Nei, ég held það ekki neitt, ég bara veit ekki mitt rjúkandi ráð. Borgarfulltrúinn sendir mig út með svívirðingum og ég sest á bekk við ráðhúsið. Loksins koma tárin. Heilu flóðgáttirnar. Tvær íbúðir eru á leið á uppboð vegna minna vanskila, íbúð aldraðrar móður og íbúð góðrar vinkonu sem höfðu báðar af góðmennsku sinni skrifað upp á fyrir mig. Ég er of vondur pappír fyrir bankana, of góður fyrir Félagsþjónustuna. Ég er skák og mát – réttdræp.

Árangurslaust fjárnám og peningaplokk


Fyrir ótrúlega guðs lukku á ég kunningja sem fer yfir stöðuna með mér og nær að semja við lögfræðingana. Hann gerir sér trúlega enn enga grein fyrir hversu stór greiðinn var og ég fæ það aldrei nógsamlega þakkað. Áður hafði ég farið á Ráðgjafarstofu heimilanna og fengið alla pappírana til baka án nokkurrar lausnar. Ég sá auglýsta þjónustu sem hét Þrjú skref sem bauðst til að semja fyrir fólk, og eftir að hafa greitt stúlkunum þar 95.000 krónur fyrir aðstoðina fékk ég pappírana enn og aftur í hendur. Því miður, þær gætu ekkert gert. Þá sá ég auglýst fjármálanámskeið í Hafnarfirði sem átti að kenna fólki að rata um fjármálafrumskóginn, kostaði 25.000 krónur og allt yrði gott á ný. Það námskeið endaði á að þátttakendur skrifuðu staðhæfingar á blöð, lögðu þau á gólfið og gengu yfir þau. Fjárhagsvandinn átti að verða eftir á blöðunum!!!
Ef ég hefði ekki verið svona skítlítil í mér á þessum tímapunkti hefði ég skrifað grein um þetta námskeið undir yfirskriftinni Árangurslaust fjárnám.


Þegar kvíðahnúturinn er orðinn eins og líffæri


Síðastliðin ár er ég svo búin að hanga í því að borga skuldirnar mínar og líða þokkalega, en á vormánuðum fór ég að finna fyrir einkennilegri líðan. Nú var það ekki bara þunglyndi sem ég var farin að þekkja vel, heldur var eins og nýtt líffæri væri að vaxa inni í mér. Það var stór hnútur í maganum sem óx og óx og ég var gripin ofsakvíða í tíma og ótíma. Ég botnaði eiginlega ekkert í þessu. Ég hafði oft séð þar svartara. Og ef ég var spurð hvernig ég hefði það sagði ég oftast FÍNT, nema það væru einhverjir mjög nákomnir, þá kom í mig leiðinda vælutónn og ég kvartaði undan álagi og áhyggjum. En meira að segja vinir manns verða þreyttir á hjakkinu manns og skilja ekki af hverju manni tekst aldrei að reka af sér slyðruorðið.

Óvinnufær og full af sjálfsásökunum


Yfirmanni mínum þótti ég neikvæð enda stefndi ég í að verða óvinnufær. Þegar ég loksins gekkst við þessari ömurlegu líðan, leitaði læknis og framvísaði læknisvottorði var það nánast vefengt. Sem er ekkert skrýtið. Yfirmenn eru ekki með manni þegar maður skelfur af ekka hjá lækninum sínum, liggur pinnstífur og byltir sér um nætur og vaknar svo kjökrandi eftir slitróttan nætursvefn. Yfirmaðurinn skilur heldur ekki af hverju einföldustu verkefni, sem hann veit að maður veldur auðveldlega, eru allt í einu óyfirstíganleg. Auðvitað skilur hann það ekki. Maður skilur það ekki sjálfur. Gluggabréf í póstkassanum kostar skelfingarkast og jafnvel uppköst, tilhugsunin um að hitta fólk sömuleiðis og til að kóróna allt saman eru fordómar annarra hjóm í samanburði við manns eigin. Maður vill bara einangra sig í sjálfsmeðaumkvun og niðurrifi sem er það versta sem maður getur gert. Hvað er eiginlega að mér, af hverju er ég algjör lúser og aumingi hugsar maður og óskar sjálfum sér norður og niður. Allir aðrir virðast vera að meika það.
Eða ekki.
Falskur frontur
Íslendingar (og auðvitað útlendingar líka) eru mataðir á því að hér ríki hamingjan ein. Það dynur á okkur dag út og inn að við VERÐUM AÐ EIGNAST og MEGUM EKKI MISSA AF og svo reynir fólk skiljanlega að bera höfuðið hátt um leið og það stangar prósak-leifarnar úr tönnunum. Þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur flækja málin enn frekar og halda því einfaldlega fram að hér sé allt í lukkunnar velstandi. Yfirfullar geðdeildir og meðferðarstofnanir segja aðra sögu. Það er samt sniðugra að breiða yfir það með óskiljanlegum súluritum og gröfum og stinga svo hausnum í sandinn. Íslensk þjóð er eins og stór "disfunctional" fjölskylda þar sem ekkert má sjást nema falskur fronturinn.

Hjálpin er nær – það þarf bara að bera sig eftir henni


Ég var svo heppin að komast í samband við yndisleg samtök sem kalla sig Höndina og hafa það að markmiði að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Þangað eru allir velkomnir sem eiga við erfiðleika að stríða, hvort sem það er þunglyndi, kvíði eða annarskonar vanlíðan. Fólk getur fengið viðtal og komist í hópmeðferð og svo fær það aðstoð með praktísk mál sem það er löngu hætt að geta sinnt vegna veikinda sinna. Þunglyndi og kvíði varðar stóran hluta íslensks samfélags og spyr ekki um stétt eða stöðu frekar en aðrir sjúkdómar. Það er því markmið Handarinnar að hjálpa fólki að rísa upp á ný og þegar einstaklingurinn er orðinn nógu sterkur til að geta hjálpað öðrum sem þjást er tilganginum náð. Fátt er betra til sjálfshjálpar en að hjálpa öðrum. Höndin er með heimasíðu, www.hondin.is.


Höndin hélt málþing í Áskirkju síðastliðið þriðjudagskvöld undir yfirskriftinni Það er engin skömm að þunglyndi. Arna Schram, blaðamaður og formaður Blaðamannafélags Íslands, og Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri Þjóðar gegn þunglyndi, höfðu framsögu og þingið tókst með afbrigðum vel. 170 manns mættu á fundinn og margir nýir félagar skráðu sig. Næsta málþing verður 6. mars undir yfirskriftinni Líifð er dásamlegt — lífsgleði njóttu, og þar mun meðal annars Margrét Frímannsdóttir halda erindi. Það málþing verður auglýst þegar nær dregur, en kjörorðið er: Leið til sjálfshjálpar — allir með.


Höfundur er blaðamaður og félagi í Höndinni.

 

bottom of page