Ekki nóg að greina vandann
– það þarf að leysa hann líka
Morgunblaðið
24.sept 2006
Drjúgum hluta barnæskunnar er varið í skólanum og Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna, og Eyjólfur Magnússon Scheving, grunnskólakennari, eru sammála um að hlutverk skólans í uppeldi barna hafi sjaldan verið stærra.
Drjúgum hluta barnæskunnar er varið í skólanum og Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna, og Eyjólfur Magnússon Scheving, grunnskólakennari, eru sammála um að hlutverk skólans í uppeldi barna hafi sjaldan verið stærra. En eru íslenskir skólar starfi sínu vaxnir?
Ingibjörg upplýsir að hún hafi bent á það í sambandi við endurskoðun grunnskólalaganna sem nú er nýhafin að það sé afar mikilvægt að grunnskólalögin skilgreini betur ábyrgð hvers aðila, þ.e. sveitarfélagsins sem rekur skólann, skólans sjálfs, foreldranna og nemendanna. „Samstarf foreldra og skóla hefur aukist mikið á liðnum misserum en eigi að síður er hægt að gera betur í því efni. Það er til dæmis áberandi að eina skyldan sem grunnskólalögin setja á herðar foreldrum er sú að þeir innriti börnin sín í skóla og sjái til þess að þau sæki skólann. Um margt er auðvitað um sameiginlegt hlutverk foreldra og skóla að ræða en annað stendur bara upp á foreldrana eins og t.d. að sjá til þess að börnin séu móttækileg fyrir fræðslunni, að þau mæti í skólann, að þau mæti á réttum tíma, að þau hafi borðað, séu rétt klædd og útsofin. Auðvitað eru þetta sjálfsagðir hlutir en það getur vel verið að í einhverjum tilvikum þurfi að segja það við fólk.“
Ingibjörg kveðst hafa rekist á það í bæklingi sem Reykjavíkurborg gefur út fyrir útlendinga að þar séu svona atriði skilgreind. „En ég hef hvergi séð þetta sett fram gagnvart íslenskum foreldrum. Ef réttaröryggi foreldra og barna þeirra er tryggt er hægt að gera strangari kröfur varðandi aga. Skólanum yrði stoð í því.“
Miðstýring hefur aukist
Eyjólfur er eldri en tvævetur í kennslu. Hann hefur kennt sleitulaust í grunnskólum frá því á öndverðum sjöunda áratugnum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Eyjólfur var skólastjóri á Hvammstanga um sex ára skeið. Þar að auki hefur hann alla tíð verið virkur í félagsstarfi barna og unglinga, þjálfun og héraðsstarfi, svo fátt eitt sé nefnt. Auk kennararéttinda hefur Eyjólfur próf í atferlisfræði frá Noregi. Hann segir að fleira starfsfólk sé í skólum í dag en þegar hann hóf kennslu. Það sé ekki endilega af hinu góða. „Miðstýring í kennslu hefur aukist mikið á síðustu árum. Ég hélt að þetta myndi breytast þegar sveitarfélögin tóku við grunnskólanum en það er öðru nær. Miðstýringin hefur aldrei verið meiri. Skólastjórar eru háðir fjárveitingum frá sveitarfélaginu og eru fyrir vikið bundnir á klafa. Geta sig hvergi hrært. Skólinn er alltaf að spara. Ég hélt að návígi væri kostur í stjórnsýslunni en svo virðist ekki vera, a.m.k. ekki í þessu efni.“
Ástandið minnir, að áliti Eyjólfs, helst á franska lénsskipulagið. „Kerfið er yfirfullt af hertogum og barónum og boðin komast aldrei alla leið í gegn. Kerfið er m.ö.o. alltof stirt. Þetta á við víðar en í skólakerfinu. Og á hverjum bitnar þetta? Auðvitað þeim sem minnst mega sín, börnunum. Ég er ekki hrifinn af þessu.“
Kennsla er list
Hann segir að vandinn liggi í því að alltof margir séu í greiningu og skipulagningu í skólakerfinu. Skriffinnskan sé yfirþyrmandi. „Kennsla er list og besta fólkið verður að vera á gólfinu. Ekki í einhverjum greiningadeildum. Það er ekki nóg að hafa her manna í að greina vandann ef enginn er eftir til að leysa hann. Það er nefnilega mun erfiðara að leysa vandann en greina hann. Tökum samlíkingu úr læknisfræðinni. Ef ég er með heilaæxli þá kemur greiningin yfirleitt fljótt. Það er minnsti vandinn. Það er hins vegar flóknara mál að lækna meinið.“
Eyjólfur segir að skólarnir séu mun lakari vinnustaður fyrir kennara í dag en fyrir fjörutíu árum. „Það gerir flatneskjan. Það eiga allir kennarar að vera eins. Kennarinn hefur ekki lengur frelsi til að vera hann sjálfur, iðka sína list. Þetta kemur niður á nemandanum. Hann fær á tilfinninguna að hann sé staddur í verksmiðju en ekki skóla. Boðin koma að ofan. Kennarinn er aldrei spurður álits og þaðan af síður nemandinn."
Kynjahlutföllin hafa breyst mikið
Kynjahlutföllin hafa breyst mikið í grunnskólum landsins á undanförnum áratugum. Þegar Eyjólfur steig sín fyrstu skref í kennslu voru karlmenn í meirihluta. Nú er yfirgnæfandi meirihluti grunnskólakennara konur. „Þessi þróun er óheppileg. Börn þurfa að kynnast báðum kynjum jafnt. Nú er svo komið að börn geta hæglega farið í gegnum grunnskóla án þess að sækja nokkru sinni í tíma hjá karlmanni, nema kannski í smíðum eða leikfimi. Það segir sig sjálft að þetta er ekki æskilegt. Ekkert frekar en að allir kennarar séu karlmenn.“
Eyjólfur segir þetta verra fyrir drengi en stúlkur. „Ég veit að mörgum drengjum líður illa í skólanum enda sýna flestar kannanir að þeir séu að dragast aftur úr stúlkunum í námi. Þá vantar föðurímyndina sem þeir höfðu áður. Drengir þurfa öðruvísi aga en stúlkur. Börn eru fljót að finna veikleika kennarans og nýta sér hann til hins ýtrasta. Fyrir vikið gefast margir upp á kennslu. Afföll eru óvíða meiri en hjá kennarastéttinni.“


Eyjólfur Magnússon Scheving í kennslu
Ingibjörg Rafnar

Fyrirtæki ársins 2012


Fyrirtæki ársins 2009
Fyrirtæki ársins 2011
Fyrirtæki ársins 2010


Fyrirtæki ársins 2014
Fyrirtæki ársins 2013


Starf Handarinnar má styrkja með því að leggja inn á reikninginn:
Banki: 0114 – 26 – 020106
Kennitala: 520106-0570
Við óskum eftir sjálf-boðaliðum í gefandi starf með okkur. Viðkomandi þyrfti að hafa 3-4 klst í mánuði til að aðstoða og veita félagsskap, öldruðum – öryrkjum og einstaklingum sem eru að fást við sorg eða erfiðleika.
Endilega hafið samband.


Fyrirtæki ársins 2015
