top of page
Finna mennskuna í sjálfum sér

 

Fréttablaðið

8. nóvember 2005

 

 

Fyrir stuttu voru stofnuð líknar- og sjálfsstyrktarsamtökin Höndin sem ætluð eru sem grundvöllur fyrir fólk sem vill koma saman og ræða tilfinningar og líðan. Í kvöld, klukkan 20.30, verður haldinn fyrsti fundurinn á vegum samtakanna í neðri sal Áskirkju, en fundirnir verða á hverju þriðjudagskvöldi á sama tíma hér eftir.

 

Eyjólfur Magnússon Scheving atferlisfræðingur er aðalmaðurinn á bak við Höndina en Ólafía Ragnarsdóttir hefur aðstoðað hann ötullega við að kynna samtökin. Ólafía hefur verið í meðferð hjá Eyjólfi þar sem hún er taugasjúklingur og í sumar fóru þau að ræða nauðsyn þess að slík samtök yrðu sett á stofn og þróuðu smám saman með sér hugmyndina. „Það sem er öðruvísi við þessi samtök en önnur er að þau eru opin öllum en ekki fyrir ákveðna hópa eins og hjá AA-samtökunum eða Geðhjálp,“ segir Ólafía með áherslu en fundir Handarinnar verða vettvangur fyrir fólk sem vill tala um tilfinningar sem leið til sjálfshjálpar. „Sérstaklega fyrir fólk sem vill finna mennskuna og manneskjuna í sjálfum sér,“ segir Ólafía og bætir við að nærvera, hlustun og nánd, auk þess að vera til staðar, sé mikilvægast í starfi samtakanna.

 

Fundir samtakanna verða þrískiptir. Eyjólfur leiðir fundina og flytur erindi. Þá er einhver fenginn til að flytja hugleiðingu en endað er á lið sem ber heitið Var og er. „Þar segir fólk frá því hvernig því leið og frá tilfinningum sínum og líðan í dag,“ segir Ólafía en á fundinum kvöld mun Thelma Ásdísardóttir flytja hugvekju um ógnvekjandi reynslu sína.

 

„Ég hef verið geðsjúklingur í 36 ár og hef aldrei verið á því stigi að finnast ég alfrísk. Það er fyrst núna að mér finnst ég vera algerlega frísk og laus við sjúkdóminn,“ segir Ólafía

og þakkar bata sínum því að hún gat rætt um tilfinningar sínar við Eyjólf. „Ef ég get orðið fólki til aðstoðar sem er í sömu sporum og ég var í, þá er það kannski tilgangurinn með öllum mínum sárakvöldum og vanlíðan,“ segir Ólafía sem vonast til að fundirnir geti þjónað sem nokkurs konar eftirmeðferð fyrir hana sjálfa.

 

Til að fá nánari upplýsingar um fundi Handarinnar er hægt að hafa samband við Ólafíu í síma 568-9399.

bottom of page