top of page
Hinn brotni reyr

 

Morgunblaðið

5. mars 2006

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samtökin Höndin voru nýlega stofnuð og hittast félagar í Áskirkju annað hvert þriðjudagskvöld. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Ólafíu Ragnarsdóttur um Höndina og tilgang hennar.

 

„Við í Hendinni viljum reisa við hinn brotna reyr,“ segir Ólafía Ragnarsdóttir og horfir fast á mig brúnum augum. Ég sit í stofunni hennar við Ljósheima. Við sitjum þarna saman til þess að ræða um hinn nýstofnaða félagsskap Höndina. Ólafíu er nokkuð mikið niðri fyrir og segist vilja gefa sem flestum hlutdeild í þeirri lífsfyllingu sem hún segir Höndina vera sér.

„Höndin er fyrir alla, þetta eru allsherjar mannræktar- og mannúðarsamtök sem hafa það á stefnuskrá sinni að byggja fólk upp sem hefur gengið illa í lífinu – leiðbeina því til sjálfshjálpar. Þegar fólk hefur öðlast styrk og brotist út úr þeim erfiðleikum sem það á við að glíma þá getur það farið að rétta öðrum hönd – hjálparhönd. Nafnið á samtökunum er lýsandi fyrir tilgang þeirra. Útrétt hönd reisir við hinnbrotna reyr,“ bætir Ólafía við.

Eyjólfur Magnús Scheving kennari og atferlisfræðingur stofnaði Höndina í september sl. og hófst starfið í nóvember.

„Fundir hafa verið haldnir, við erum á milli 20 og 30 sem erum félagar í Hendinni,“ heldur Ólafía áfram.

„Ég hef verið geðsjúklingur í nærri 30 ár og er búin að reyna allan „skalann“ í mannlegum tilfinningum. Einkum hafa kvíði, ótti og þráhyggjuhugsanir plagað mig

seinni árin. Þegar ég veiktist á unglingsárum missti ég vini mína alla nema einn og einangraðist, ég er einbirni og missti móður mína, sem ég hafði annast lengi, fyrir skömmu. Þá vildi mér til að ég komst í meðferð hjá Eyjólfi Magnúsi Scheving. Það var mér til mikils láns, hann er mjög fær í að hjálpa fólki að styrkja sjálfsímynd, sjálfsvirðingu og sjálfstraust og leiðir mann smátt og smáttinn á þá braut að gera hluti sem áður virtist óhugsandi að viðkomandi gæti. Mér finnst nú að ég sé frísk, mig hefði t.d. aldrei dreymt um að ég færi að fara í blaðaviðtal,“ segir Ólafía.

„Eyjólfur hefur kennt mér að rétta öðrum hönd og þannig á þetta að vinda upp á sig, að hver rétti öðrum hönd eftir því sem hver og einn styrkist. Við ætlum að hafa tengla úti í samfélaginu, t.d. einn fyrir þunglynda, annan fyrir fólk sem hefur sætt einelti, þann þriðja fyrir þá sem misst hafa ástvini, sá tengill verður séra Karl V. Matthíasson.

Samtök eins og Höndin er góð forvörn gegn einmanakennd sem getur verið einn orsakavaldur þunglyndis. Svona starfsemi getur átt þátt í að minnka lyfjaþörf og jafnvel fækkað dýrum innlögnum á sjúkrahús, það væri mikill sparnaður fyrir samfélagið.

 

Ég legg áherslu á að þó ýmsir í Hendinni eigi við mismikil vandamál að stríða er þetta félag hugsað fyrir alla sem hafa áhuga á tilfinningum og góðum samskiptum við aðra – til að finna mennskuna í manneskjunni. Sumir sem eru í Hendinni hafa fyrst og fremst áhuga á málefninu sem slíku.Við teljum mikla þörf á samtökum sem þessum og því erum við nú að kynna Höndina. Þess má geta að fengnir eru fyrirlesarar á fundina sem fara fram í Áskirkju annaðhvert þriðjudagskvöld kl. 20.30 og þar eru kaffiveitingar fyrir þá sem vilja.

 

Lykillinn að rétta öðrum hjálparhönd

„TILDRÖGIN að stofnun þessara samtaka voru þau að ég var í samstarfi við Karma, sjálfshjálparhóp fólks með lystarstol,“ segir Eyjólfur Magnús Scheving, atferlisfræðingur og kennari. „Svo rann upp fyrir mér að það þyrfti að stofna samtök fyrir miklu stærri hóp sem líður bæði andlega og líkamlega fyrir sjúkleika, missi og sorg – Höndin er svar við þessu.“

En hvernig ferðu að því að hjálpa fólki að fá betri sjálfsímynd?

„Mikilvægt er að þeir sem hafa lélega sjálfsmynd byrji fljótt að rétta öðrum hjálparhönd, það er lykillinn að betri líðan og að menn geti fundið tilgang í lífið. „Á ég að gæta bróður míns?“ var sagt. „Já,“ segi ég, „fólk á að gefa öðrum af sinni reynslu og lífsspeki.“

bottom of page