top of page
Lífið getur verið yndislegt

 

 

júní 2007

eftir Eddu Jóhannsdóttur

 

 

Edda Jóhannsdóttir,

blaðamaður og félagi í Höndinni, skrifar:

 

Sektin 

 

Við sem höfum tilhneigingu til þunglyndis og kvíðaraskana eigum ótalmargt sameiginlegt. Eitt er sektarkennd og tilfinningin að eiga ekkert gott skilið. Hvaðan ætli það komi? Ég hef oft hugleitt hvernig stendur á því að þegar vel gengur verð ég meira hrædd en glöð. Ég man ekki til  að hafa verið alin upp við refsandi guð en tilfinningin var og er stundum enn þessi: “Ekki vera glöð eða hamingjusöm, það kemur bara í bakið á þér. ”Sektarkenndin er líka viðvarandi og hluti af

þessu. Ég finn til sektar ef ég er glöð og er undrafljót að reka gleðina á brott til að gefa sektinni meira rými.

 

Grimmdin 

 

Það er ekki eins og ég hafi ekki lesið skrilljón sjálfshjálparbækur. Eða farið á námskeið til að efla sjálfstraustið.

 

Þetta hafa verið brilljant bækur og námskeið en á endanum sat ég samt uppi með lélega sjálfsvirðingu og nístandi óttann.Ég var beinlínis vond við sjálfa mig, svo vond að ef einhver hefði sýnt einhverjum öðrum grimmd í líkingu við þá sem ég beitti mig hefði ég risið upp, arfabrjáluð, til varnar viðkomandi. Mér þótti bara ekkert vænt um mig. Niðurrifið var í gangi allar vökustundir, síbyljuhugsanir um að vera einskis virði, gera ekkert vel, vera feitur, ljótur og óáhugaverður, heimskur og leiðinlegur.

 

Sjálfsfyrirlitningin 

 

Ég kunni ekki að taka hrósi og varð í besta falli vandræðaleg en oftar ókurteis við þann sem hrósaði. Hristi hausinn í vandlætingu.Hvers konar virðing er það fyrir öðru fólki?Það eru margar leiðir sem hægt er að fara til að losna út úr þessum vítahring. Ég reyndi að skoða myndir af mér sem litlu saklausu barni en það dugði ekki til. Hinsvegar ef ég hugsaði um að einhver myndi beita börnin mín eða barnabörn órétti fann ég til ótrúlegrar reiði. Og skildi loksins að ég var að beita  mig þessum órétti öllum stundum.

 

Batinn 

 

Nú gengur mér betur. Ég reyni að lifa samkvæmt 12 spora kerfinu og á fundunum hjá Höndinni var svo gott að sjá og heyra að ég var ekki ein um “bullið”. Við vorum öll meira og minna hrædd og kvíðin en skildum hvert annað. Það er líka svo óendanlega gott að finna að maður er ekki einn um þessar hugsanir.Ég er farin að sýna sjálfri mér virðingu svo og öðru fólki og ef ég er glöð leyfi ég því að flæða.  Að minnsta kosti miklu oftar en áður.

Lífið getur verið svo yndislegt þegar maður hleypir því að. 

 

bottom of page