top of page
Um þunglyndi

 

 

Arna Schram

Erindi flutt á Málþingi Handarinnar

7. febrúar 2007

 

 

„Stattu þig; engan aumingjaskap; bíttu í skjaldarrendurnar og drífðu þig út.“ Þessi  setning hljómar eflaust kunnuglega í eyrum margra sem glíma við eða hafa glímt við þunglyndi.

 

Orðin koma ekki endilega að utan, þ.e. frá vinum, vandamönnum eða vinnufélögum, heldur líka að innan, frá viðkomandi sjálfum – okkur sjálfum sem höfum þurf t að glíma við þunglyndi.

 

Þegar þessi orð eru sögð við manneskju sem á við þunglyndi að stríða, eru þau ekki sögð af skilningi um líðan hennar; þau bera þvert á móti vott um skilningsleysi og vanþekkingu. Þar með felst í þeim líka ákveðin hræðsla og ákveðnir fordómar gagnvart andlegri  vanlíðan.

 

Eða hverjum dytti í hug að segja við manneskju sem er með lungnabólgu, manneskju sem er fótbrotin eða manneskju sem er með krabbamein: svona drífðu þig út, farðu í göngutúr, þá lagast þetta.....???

 

Líklega má rekja vanþekkinguna og fordómana til þess hve erfitt er að skilgreina geðsýki.

 

Hún er til dæmis ekki beinbrot sem við sjáum og grær með tímanum heldur veiki sem hefur áhrif á líðan og hegðun fólks.

 

Og af því að hún sést ekki berum augum, höfum við tilhneigingu til þess að tala um hana í hálfum hljóðum; hún er feimnismál og allt of oft má enginn vita af henni nema í óefni er komið. Og þá er jafnvel  allt orðið um seinan.

 

Þrátt fyrir aukna umræðu um þunglyndi og aðra geðsjúkdóma er  enn stundum dregin upp afkáraleg mynd af geðsýki og geðsjúkrahúsum í til dæmis kvikmyndum.

 

Þá heyrum við af og til fréttir af því hve þjóðin borði mikið af því sem oft hefur verið nefnt gleðipillur, en heitir réttilega geðlyf.

 

Í sömu andrá er tekið fram hve kostnaður þjóðarinnar sé mikill af þessu gleðipilluáti.

 

Alltof sjaldan er hins vegar minnst á það hve þjóðin spari mikið þegar til lengri tíma sé litið – á því að veita þá hjálp sem felist í geðlyfjum. Hvað þá að minnst sé á það hvað þjóðin spari mikið á því, þegar til lengri tíma er litið að bjóða fram úrræði fyrir alvarlega geðsjúka.

 

Í umræðunni um geðheilbrigði hefur komið fram að geðsýki fari, þar með þunglyndi,  fari ekki  í manngreinarálit. Og það er rétt. Hún getur komið fram í öllum fjölskyldum og hún getur komið fram hvenær sem er. Enginn er óhultur, því miður, ekki frekar en nokkur er óhultur fyrir ýmsum öðrum sjúkdómum eða slysum.

 

Því má þó ALLS ekki gleyma að geðsýki, og þar með þunglyndi, er í mörgum tilvikum hægt að lækna, fáist til þess rétt úrræði. Og þjáningar þeirra sem ekki ná fullum bata er hægt að lina með viðeigandi meðferð.

 

Til þess að svo megi verða, þ.e. svo allir fái þá hjálp sem þeir þurfa, verðum við að horfast í augu við staðreyndir.

 

Við þurfum að hætta að fela vanlíðanina.

 

Við verðum að ræða hana opinskátt; upplýsa og fræða. Við verðum líka að finna viljann til þess að þiggja hjálp, þurfum við á henni að halda.

 

Og samfélagið; hið opinbera og atvinnulífið verða að finna viljann til þess að hjálpa þeim sem þurfa á henni að halda.

 

Eins og ég vék að áðan, er umræðan um geðsýki, sem betur fer orðið almennari og opnari hin síðar ár. Þar ber m.a. að þakka starfi á borð við það sem er unnið hjá Geðrækt, Geðhjálp og Klúbbnum Geysi, svo dæmi séu nefnd.

 

Ég trúi því að fordómar og ótti við andlega vanlíðan muni með aukinni umræðu brátt víkja fyrir þekkingu og fordómaleysi.  Ég trúi því að með tímanum munum við ekki heyra frásagnir af mönnum sem hafi „farið yfir um“ og því lent á „hæli“, heldur verði einfaldlega sagt: „Hann greindist með geðsýki, og fékk viðeigandi meðferð; viðeigandi lyf og var lagður inn á viðeigandi sjúkradeild, geðdeild eða geðsjúkrahús. Svo einfalt á þetta að vera – við þurfum að útrýma fordómum –  því nóg er nú samt að þurfa að glíma við þunglyndið.

 

 

Arna Schram

bottom of page