top of page
Á ég að gæta bróður míns?

 

Dagblaðið – DV

9. júní 2006

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ólafía Ragnarsdóttir var ekki nema fjórtán ára þegar hún reyndi að fremja sjálfsvig. Eftir það var hún fastagestur í geðheilbrigðiskerfinu án þess að fá lausn sinna mála. Fyrir ári birti til hjá Ólafíu þegar hún hóf meðferð hjá atferlisfræðingi og náði á nokkrum mánuðum meiri árangri en hún hafði náð með læknunum í áratugi. Nú hefur Ólafía ásamt fleirum stofnað sjálfshjálparsamtök sem heita Höndin.

 

Það kemur í ljós þegar ég hitti Ólafíu að um er að ræða bernskuvinkonu sem ég var meira að segja heimagangur hjá. Ólafía bjó í sama stigagangi og ég í Safamýrinni og hafði þá sérstöðu meðal okkar krakkanna í blokkinni að eiga tvær mæður. Ólafía var skilnaðarbarn og bjó hjá móður sinni og systur hennar. Móðirin vann úti en systirin var heima og annaðist barnið. Ólafía var sérstaklega skemmtilegur og harmónískur krakki og við rifjum upp á kaffihúsinu hvernig við sömdum fjölmörg leikrit sem við ætluðum alltaf að setja upp í garðinum bak við hús, byggðum alvöru snjóhús á vetrum og horfðum saman á Steinaldarmennina. Líka þegar Ólafía fótbrotnaði og var að mínu mati heppnasta barn í heimi því annað eins dekur hafði ég aldrei séð. Ólafía fær ekki að vita fyrr en þarna á kaffihúsinu að ég öfundaði hana brjálæðislega af gifsinu og fór margar ferðir á skauta á Melavöllinn til að freista þess að fótbrotna sjálf.

 

Mér finnst Ólafía ekkert hafa breyst síðan leiðir okkar skildi á sjöunda áratugnum þegar ég fluttist með foreldrum mínum til útlanda. Hún er enn dökk yfirlitum og stráksleg með snaggaralegan svip og glimt í augunum. Í áratugi örlaði þó ekki á glimti í augum Ólafíu. Hún var ekki nema unglingur þegar geðsjúkdómur náði tökum á henni og meira að segja meðan við lékum okkur áhyggjulausar í Háaleitishverfinu var farið að bera á einkennunum. Ég vissi bara ekkert um það.

 

Ekkert til sem hét geðsjúkt barn

 

„Það var ekkert til í þá daga sem hét geðsjúkt barn,“ segir Ólafía. „Þegar ég hugsa til baka veit ég samt að þetta hófst mjög snemma því mér leið alltaf illa í skólanum og átti erfitt með svefn. Það var ekki nema þegar ég fór með móðursystur minni á Gullfoss þar sem hún rak söluskála á sumrin að mér leið vel. Í skólanum var ég alveg ómöguleg. Mér gekk vel að læra en gafst upp fjórtán ára. Þá reyndi ég í fyrsta og eina skiptið á ævinni að taka mitt eigið líf og gleypti fullt af svefntöflum. Það var ekkert annað en ákall á hjálp. Það voru bara engin úrræði, engir skólasálfræðingar eða félagsráðgjafar og þetta var bara afgreitt sem taugaveiklun. Það var allt reynt til að fá mig aftur í skólann en það gekk ekki. Síðar kom í ljós að minn sjúkdómur er áráttu- og þráhyggjusýki.“

 

Læknar dældu lyfjum í unglinginn

 

Ólafía fékk frá upphafi kolranga meðhöndlun en lagðist þó aldrei inn á geðdeild, heldur gekk til geðækna sem gáfu henni ógrynni af lyfjum. „Þegar ég hugsa um það eftír á var ástæðan fyrir því að ég lagðist aldrei inn á geðdeild mínir eigin fordómar. Ég kom mér alltaf undan því enda hafði ég mömmu til að hugsa um mig en hún var mjög meðvirk í öllum mínum veikindum. Um tvítugt var búið að dæla látlaust í mig lyfjum frá fjórtán ára aldri og ég var orðin lyfjasérfræðingur. Í framhaldi af því fór ég að misnota lyfin og var í læknadópi í sjö ár, eða þangað til ég fór í meðferð á Vífilsstöðum.

 

Meðan ég var í læknadópinu var ég félagslega virk á köflum en datt niður í djúpt þunglyndi þess á milli. Mér leið auðvitað mjög illa og notaði lyfin til að deyfa mig. Eitt sumarið var þunglyndið svo slæmt að ég lá algjörlega í rúminu, klæddi mig ekki og gerði ekki nokkum skapaðan hlut. Mamma kunni engin ráð, var bara meðvirk og snerist í kringum mig og gerði mér kleift að lifa lífinu svona.“

 

Ólafíu finnst, þegar hún horfir til baka, að læknar hafi sáralítið gert. „Ég man að þeir sögðu mér að drífa mig aftur í skóla eða vinnu, en jafnvel læknarnir skildu ekki að ég var of veik til að geta það. Mig langaði í skóla en var bara alveg ófær um það. Svo notaði ég auðvitað veikindin líka sem hækju. Ef það var eitthvað sem ég vildi ekki gera eða nennti ekki að gera gat ég alltaf afsakað mig með veikindunum. Ég held að margir geðsjúklingar noti veikindin sín stundum þannig.“

 

Valdi nístandi einmanaleikann

 

Það var Ólafíu mikið áfall þegar móðursystir hennar lést en þá var Ólafía 18 ára. „Þetta hafði að vissu leyti verið flókinn uppvöxtur og mér þótti i rauninni vænna um Duddu móðursystur mína en mína eigin móður. Mamma var aukapersóna og ég hafði alltaf sektarkennd yfir þessu. Þegar Dudda lést gerði ég ekkert til að vinna úr sorginni, en ég lærði þó að meta mömmu eftir að Dudda dó.“

 

Eftir að Ólafía fór í meðferð á Vífilsstöðum átti hún nokkur góð ár. „Þá byrjaði að rofa til og ég skildi að ég væri orðin fullorðin manneskja og yrði að taka ábyrgð á eigin lífi. Ég hafði verið á sífelldum flótta í læknadópinu. Það finnur hver sína flóttaleið, hvort sem það er áfengi, læknadóp eða eitthvað annað. Þarna fór ég líka að meta mömmu að verðleikum, en fram að þessu hafði hún bara verið mamman sem átti allt að gera fyrir mig. Þarna fór ég að skynja hana sem einstakling með eigin langanir og þrár. Ég sá hvernig ég hafði komið fram við hana og kastað allri ábyrgð á hana.

 

En svo fór að halla undan fæti aftur og ég var trúlega komin með milt þunglyndi sem ég upplifði þó ekki þannig. Öll mín hegðun var þó dæmigerð fyrir þunglyndissjúklinga. Þetta var ekki þunglyndi sem lamaði mig algjörlega og ég gat gert það sem ég nauðsynlega þurfti, en var mjög sinnulaus og hirðulaus og hugsaði ekki um einfalda hluti eins og að fafa í bað og þrífa í kringum mig. Svo fór ég að einangra mig og sleit öll vinatengsl. Það var ekki þannig að vinirnir gæfust upp á mér heldur vildi ég frekar þola einmanaleikann, sem var oft mjög nístandi, en vera innan um fólk.“

 

Fannst ég algjör aumingi

 

Ólafía og mamma hennar bjuggu á þessu tímabili í húsnæði vestur í bæ sem Ólafía segir að hafi verið hálfgert greni. „Mamma vildi flytja en ég stjórnaði og það varð ekkert úr því lengi vel. Það endaði þó með að við fluttum í ágætis húsnæði þar sem bjó venjulegt fólk. Tveimur árum seinna veiktist ég svo mjög alvarlega. Þá var mamma orðin léleg sjálf og ekki í neinu standi til að hugsa um sjúkling en milli þess sem hún „kóaði“ með mér þurfti ég að fara í hlutverk sterku konunnar og annast hana.

 

Síðustu árin sem hún lifði var oft eins og hún væri barnið og ég mamman. Sjálfsmatið mitt var bara svo lélegt og sjálfsvirðingin engin að mér fannst ég algjör aumingi. Samt var fólk að segja við mig að enginn væri aumingi sem gerði það sem ég gerði, að hugsa um sjúka gamla konu og heimili.“

 

Undur gerast

Þegar móðir Ólafíu lést fyrir ári var hún niðurbrotin og vonlaus. Þá komst hún í samband við Eyjólf Magnússon Scheving, kennara og atferlisfræðing, og nú formann Handarinnar, sem hún segir að hafi skipt sköpum í lífi hennar.

 

„Það er það besta sem hefur komið fyrir mig í lífinu,“ segir Ólafía og brosir björtu brosi. „Þá fyrst fór að birta til. Eyjólfur byggði upp hjá mér sjálfstraust og sjálfsvirðingu sem ég var alveg búin að týna. Hann fékk mér ýmis verkefni og leiddi mig smátt og smátt inn á þá braut að ég væri einhvers virði og gæti gert allt mögulegt. Hann gat gert fyrir mig á einu ári það sem enginn geðlæknir eða sálfræðingur hafði getað gert í öll þessi ár.“

 

Viljum ná til einmana og félagslega einangraðra

 

Hugmyndin að Hendinni vaknaði svo í samtalsmeðferð Ólafíu hjá Eyjólfi. Ólafía segir að hugmyndin sé fyrst og fremst hugarfóstur Eyjólfs en þau hafi verið sammála um að þörfin fyrir svona félgasskap væri brýn.

 

„Þrátt fyrir að margt hafi verið gert í geðheilbrigðisþjónustu á þessum árum sem eru liðin frá því ég veiktist er enn svo langt í land. Við sáum að sárlega vantaði samtök sem leituðust við að vera breiður vettvangur fyrir þá sem líða annaðhvort andlega eða líkamlega. Höndin er fyrst og fremst sjálfshjálparsamtök sem vilja styðja við bakið á þeim sem til þeirra leita vegna veikinda eða ýmissa áfalla. Við viljum aðstoða fólk sem er í þessari stöðu og styðja það fyrstu skrefin út í lífiðá ný. Það er svo mikilvægt að auka félagslega færrni þessa fólks sem oft er orðið mjög félagslega einangrað og einmana og þann vítahring viljum við rjúfa. Það er fullt af fólki sem situr eitt heima hjá sér og gruflar í eigin vandamálum en veit ekkert hvert það á að snúa sér og er jafnvel að berjast við eigin fordóma. Það er til þessa fólks sem við viljum ná.“

 

Að hjálpa öðrum besta lækningin

 

Ólafía ítrekar að Höndin sé þverpólitísk, þverfagleg og þvertrúarleg. „Þetta eru samtök sem hafa þá sérstöðu að vera öllum opin, hvort sem viðkomandi líður andlega eða líkamlega. Það er heldur ekkert skilyrði að vera líðandi til að gerast félagi og þess vegna

er Höndin kjörinn vettvangur fyrir þá sem hafa áhuga á tilfinningum og mannlegum samskiptum og ekki síst fyrir þá sem eru tilbúnir að hjálpa öðrum. Hugmyndafræði Handarinnar byggist einmitt á að einstaklingur sem hefur losnað út úr eigin erfiðleikum og vanmætti geti farið að rétta öðrum hönd - hjálparhönd. Það er oft besta lækningin, það hef ég sannreynt sjálf.“

 

Sjúklingar sendir fárveikir heim

 

Kjörorð Handarinnar er „Á ég að gæta bróður míns?“ og Ólafía segir að því svari samtökin að sjálfsögðu játandi.

 

„Okkur finnst mikilvægt að fólk sem leitar til okkar fái hjálp strax en sé ekki sagt að koma eftir viku eða hálfan mánuð eins og gerist svo oft í geðbatteríinu. Ég hef sjálf reynslu af þessu sem geðsjúklingur, að vera send heim jafnveik og ég kom. Til að sinna þessu höfum við opnað síma þar sem alltaf verður hægt að ná til okkar. Ég svara í síma 5689399 eða 8666070 og þangað getur fólk hringt hvenær sem er og við munum reyna að vinna í málum þess.“

 

Í haust ætlar Höndin að hefja átak með að koma á heimsóknarþjónustu fyrir eldri borgara og nota sumarið til að safna sjálfboðaliðum til að sinna þessu verkefni. Ólafía hvetur alla sem áhuga hafa að hafa samband við sig.

 

„Þess gætir um of í þjóðfélaginu að einstaklingar séu flokkaðir niður og bundnir á klafa; alkóhólistinn, geðsjúklingurinn, búlimíu-/ anorexíusjúklingurinn og svo framvegis. Það gleymist að hóparnir samanstanda af gerólíkum einstaklingum sem eiga rétt á að vera dæmdir út frá eigin forsendum sem persónur en ekki stimplaðir út frá hópeinkennum. Hver einstaklingur á rétt á mannsæmandi lífi og að geta virkjað hæfileika sína og getu í þá átt sem hugur hans stendur til, óháð þjóðfélagsstétt eða fötlun. Fyrir þessu vill Höndin berjast,“ segir Ólafia.

 

Fordómar á geðdeildum

 

Ólafía segist því miður hafa heyrt ófagrar sögur af viðskiptum fólks við geðheilbrigðisþjónustuna þar sem talað er niður til fólks og því sýnd lítilsvirðing. „Það er að sjálfsögðu með öllu ólíðandi ef það er tilfellið að fordómarnir grasseri inni á stofnununum. Þá spyr maður sjálfan sig hvort það sé nokkuð skrýtið að fordómarnir séu miklir úti í þjóðfélaginu. Ég hef af því reynslu þó ég hafi aldrei legið inni á geðdeild að það sé talað niður til mín innan kerfisfns.“

 

Ólafía ef líka ómyrk í máli þegar Félagsþjónustuna í Reykjavfk ber á góma og telur að þar þurfi að gera miklar breytingar. „Kerfið er allt of þunglamalegt og biðin eftir þjónustu allt of löng. Ég þurfti að hafa samband við Félagsþjónustuna í Reykjavík vegna ákveðins máls og þurfti að bíða í mánuð, bara eftir að fá viðtal. Í mínu tílfelli kom þetta ekki að sök en það er fullt af fólki sem er ekki í stakk búið að bíða heilan mánuð. Þarna þarf að verða breyting á og er ef til vill kjörið verkefni fyrir nýjan borgarstjómarmeirihluta að láta til sína taka og bæta úr.“

 

Æskuminningar í lokin

 

Við Ólafía pöntum okkur meira kaffi því við eigum enn ýmislegt órætt frá því í Safamýrinni forðum. Eins og til dæmis af hverju við nenntum aldrei að leika okkur með dúkkur og fannst meira gaman í strákaleikjum. Okkur fannst líka strákar komast upp með miklu meira en stelpur og vorum sennilega orðnar femínistar níu ára án þess að hafa nokkurn tíma heyrt það orð. Ólafía er enn jafn skemmtileg og hrífandi og minningarnar koma á færibandi. Ég er stolt af þessari æskuvinkonu minni og yfir mig glöð að hafa hitt hana aftur. Við ætlum að halda sambandinu og ég hlakka tíl að fylgjast með henni vinna nýja sigra og hjálpa öðmm til betra lífs.

 

edda@dv.is

 

 

 

 

bottom of page