top of page
Jákvætt sjálfstraust er lykill að velgengni

 

blaðið

7. nóvember 2007

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

„Jákvætt sjálfstraust er í rauninni að kunna að sigra og tapa en halda samt áfram á sinni braut,“ segir Eyjólfur Magnússon, kennari og stjórnarformaður Handarinnar. Samtökin standa i kvöld að fræðslufundi um jákvætt sjálfstraust, leið til betra lífs. Magnús Scheving, forstjóri Latabæjar, og Svafa Grönfeldt, aðstoðarforstjóri Actavis, verða framsögumenn og Páll Eiríksson geðlæknir er fundarstjóri.

 

„Við ákváðum að fá Magnús og Svöfu á fræðslufund um sjálfstraust því þau eru toppfólk og hafa komið sér vel fyrir í samfélaginu. Það hefðu þau varla getað nema með því að hafa haft jákvætt sjálfstraust að leiðarljósi þar sem sjálfstraust er lykill að velgengni,“ segir Eyjólfur.

 

Hann segir að Höndin sé fyrst og fremst mannúðar- og mannræktarsamtök sem eru til styrkingar og samhjálpar fyrir fólk í víðum skilningi.

 

„Meginhugsunin er sú að byggja fólk upp eftir ýmis áföll og leiðbeina því til sjálfshjálpar. Þegar fólk hefur öðlast styrk þá hefur það styrk til að rétta öðrum hjálparhönd. Við verðum öll fyrir einhvers konar sorg eða missi og besta lækningin er fólgin í því að hjálpa öðrum. Sorg og missir getur verið allt mögulegt, skilnaður eða jafnvel fall á prófi,“ segir Eyjólfur og bætir við að Höndin sé rúmlega ársgömul. „Við höldum fræðslufundi mánaðarlega og höfum tekið fyrir fjölmörg mál. Fyrsti fundurinn var með Thelmu Ásdísardóttur um kynferðisofbeldi, auk þess höfum við fjallað um átröskun og margt fleira. Síðast var fræðslufundur um fíkniefni og hann sóttu rúmlega áttatíu manns. Við erum líka með sjálfsstyrkingu tvisvar í viku sem er opin öllum rétt eins og fræðslufundirnir.“

 

Fræðslufundur Handarinnar um jákvætt sjálfstraust er haldinn í Áskirkju í kvöld og hefst klukkan 20.30. Frekari upplýingar má finna á www.hondin.is.

 

svanhvit@bladid.net

 

 

bottom of page