top of page
Aldrei mátt aumt sjá

 

„Ég var mikið á móti Breiðavík og satt best að segja hrekk ég alltaf í kút þegar talað er um þessi agavandamál í skólum. Ég tók þessa drengi bara heim til mín þar sem við fjölskyldan bjuggum í Reynigrund í Kópavogi, eftir skóla og heilan kennsludag. Ég vildi það frekar en þeir lentu einhvers staðar og einhvers staðar,“ segir Eyjólfur Magnússon Scheving. — Morgunblaðið/Ófeigur

 

 

 

 

 

Eyjólfur Magnússon Scheving hefur alla ævi boðið þeim sem minna mega sín hjálp; ungum og öldnum, alla leið inn á eigin heimili. Hann er nýhættur kennslu en mannræktar- og mannúðarsamtökin Höndin hafa átt hug hans allan síðustu árin. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

 

 

Eyjólfur Magnússon Scheving er ein af hvunndagshetjum samfélagsins. Hann hefur látið lítið fyrir sér fara þótt hann hafi meira og minna alla ævina verið alls konar fólki, ungum sem öldnum, innan handar sem hefur þurft á hjálp að halda. Sem ungur kennari tók hann „vandræðadrengina“, sem skólarnir ráku og enginn vildi sökum einhvers konar vandræða, heim til sín í kennslu eftir að venjulegum vinnudegi lauk. Síðar á ævinni stofnaði hann mannræktarsamtökin Höndina, sem hafa stigið inn í erfiðar aðstæður fólks, einstaklinga sem yfirleitt eiga fáa að, og leyst úr erfiðum verkefnum. Í dag er hann nýhættur að kenna, stendur á þeim tímamótum að vera 75 ára og þrátt fyrir að vera alinn upp við það að maður eigi ekki að hæla sér eins og hann segir sjálfur frá, hógvær, fellst hann á að setjast niður með blaðamanni Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins og fara yfir það sem á daga hans hefur drifið.

„Ég er fæddur árið 1942 og ólst upp í Reykjavík. Fjögurra ára gamall flutti ég inn í Kleppsholtið, í Skipasund, sem er gatan næst sjónum í hverfinu og svæðið fyrir neðan okkur var allt óbyggt. Allt í kring voru stór leiksvæði; Kleppstúnið, Vatnagarðar og besta skautasvell borgarinnar var þar sem Eimskip er nú og brekkurnar voru okkar skíðasvæðið og það besta enda komu margir af þekktari skíðamönnum landsins úr þessu hverfi. Þetta voru yndislegir tímar sem maður átti í leikjum daginn út og inn og enn í dag á ég æskuvini, sem ég hef þekkt alla ævi, úr hverfinu. Slíkt er ómetanlegur stuðningur í lífinu.“

Foreldrar Eyjólfs voru Magnús Scheving Jónsson og Sólveig Vilhjálmsdóttir, en ættir sínar rekur Eyjólfur meðal annars í Svarfaðardal. Eyjólfur á eina systur, Sigrúnu Magnúsdóttur, sem lét fyrir skömmu af störfum sem umhverfisráðherra.

„Móðir mín var mikill femínisti og nokkuð ströng en ekki það ströng að hún leyfði mér ekki að geyma í garðinum alls kyns dót og dekk sem ég byrjaði að safna í áramótabrennuna strax í október. Faðir minn var sjómaður og vann við múrverk en sökum þess að hann fékk berkla 15 ára gamall voru öll verk erfiðari fyrir hann. Hann dvaldi fyrst á Vífilsstaðaspítala og síðar Kópavogshæli og komst í raun ekkert þaðan út fyrr en eftir 7-8 ár, þá 24 ára gamall. Hann náði þó að efnast ágætlega og þar munaði um að hann gat farið á hrognkelsisveiðar.

Heimilishaldið var nokkuð á undan samtímanum, þannig gekk faðir minn í öll verk innanhúss og við systkinin fengum okkar skerf af húsverkum. Nema hvað að við Sigrún gátum ekki vaskað upp saman, þá fór allt í hund og kött. Ég var látinn taka salernin og það sem var kallað „fremri gangur“. Sonur minn, Magnús Scheving, sagði nú reyndar í afmælinu mínu þegar ég varð fimmtugur að hann hefði farið og mælt „þennan mikla gang“ sem ég hafði svo oft státað af að hafa þrifið og sagði að hann væri líklega innan við fermetra!“ segir Eyjólfur og hlær.

Magnús Scheving, Latabæjarfrumkvöðull og athafnamaður, er eitt þriggja barna Eyjólfs af fyrra hjónabandi en hin eru Ragna Sólveig listakona og Hjörtur Már, tölvunarfræðingur. Einnig á Eyjólfur tvö stjúpbörn, Hallbjörn Eðvarð, kokk, og Fjólu sem er sérfræðingur hjá VR. Eiginkona Eyjólfs í dag er Helga Hallbjörnsdóttir, en þau kynntust fljótlega eftir að Höndin tók til starfa og er Helga potturinn og pannan í starfsemi samtakanna í dag og gegnir formannshlutverki. Sjálf hefur Helga strítt við andleg veikindi, geðhvörf. Hún hefur ekki þurft eins mikið á sjúkrahúsvist að halda eftir að hún kynntist Eyjólfi og Hendinni.

 

Tók „vandræðadrengina“ í heimakennslu

Þrátt fyrir að fjölskyldan á æskuheimili Eyjólfs hafi verið afar samheldin og foreldrarnir fyrirhyggjusamir var þó meira en að segja það að takast á við það þegar fyrirvinna heimilisins lenti í slysi, þegar Eyjólfur var 10 ára gamall.

„Engar tryggingar dekkuðu vinnutap og fjárhagstjón þegar pabbi slasaðist illa og var rúmfastur í þrjá mánuði. Ég held ég hafi þá gefið mömmu minni þá bestu gjöf sem hún átti nokkurn tímann eftir að fá frá mér, en ég tók mig til og seldi sleðann minn á tíkall og lét hana hafa,“ segir Eyjólfur, en þar birtist fljótt það eðli hans að vilja hjálpa.

Eyjólfur fann fljótt að hann hafði það sterkt í sér að vilja kenna og leiðbeina og það hentaði honum vel að vinna með ungu fólki. Hann byrjaði á því að fara í íþróttakennaraskóla og var svo farinn að kenna 23 ára gamall. Síðan þá hefur hann unnið sleitulaust, sem kennari og skólastjóri, í grunnskólum landsins þar til nú. Á 9. áratugnum bætti hann við sig í námi og fór í atferlisfræði í Noregi, með aðaláherslu á hegðun unglinga. Fljótt varð ljóst að Eyjólfur gat náð til ungmenna sem aðrir gátu hreinlega ekki.

Eyjólfur byrjaði að kenna í gagnfræðaskólanum Brúarlandi í Mosfellssveit í byrjun sjöunda áratugarins og var falið að hafa umsjón með heimavist skólans. Athygli vakti hve góðum árangri hann náði í greinum sem hann kenndi nemendum undir landspróf, þar sem hann var ungur að árum og með litla reynslu. Nokkrum árum síðar tók hann að sér að vera framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Skallagríms í Borgarnesi og kennari þar, var skólastjóri á Hvammstanga í sex ár og eftir námið í Noregi lá leið hans í Snælandsskóla og hann lauk kennsluferlinum undir stjórn hins merkja skólamanns Sölva Sveinssonar eins og hann orðar það sjálfur og „því góða liði“ er var í Landakotsskóla.

„Ég var alltaf á móti ýmsum þeim leiðum sem fólki þótti sjálfsagt að nota í þá daga og talaði til að mynda mikið á móti því að senda þá drengi sem áttu erfitt með nám eitthvert langt í burtu. Það var alltaf verið að senda þá út og suður. Ég var mikið á móti Breiðavík og satt best að segja hrekk ég alltaf í kút þegar talað er um þessi agavandamál í skólum. Ég tók þessa drengi bara heim til mín þar sem við fjölskyldan bjuggum í Reynigrund í Kópavogi, eftir skóla og heilan kennsludag. Ég vildi það frekar en þeir lentu einhvers staðar og einhvers staðar, úti á landi eða í Efstasundi, hafði vonda tilfinningu fyrir því. Enda kom síðar á daginn að þar voru unglingarnir bundnir með límbandi. Þessir strákar sem ég fékk til mín eru meira og minna allir vinir mínir í dag,“ segir Eyjólfur, sem hefur einnig aðstoðað suma þeirra eftir að þeir urðu fullorðnir.

Það var fræðsluskrifstofa Reykjanesumdæmis sem bað Eyjólf um að taka börn heim sem þurftu aðstoð og árið 1986 fór hann fyrst að fá börn heim til sín í kennslu. Sum barnanna enduðu á að vera hjá honum í mörg ár. Vandamál þeirra voru margs konar, sneru að hegðun, samskiptum, vímuefnaneyslu, afbrotum og námserfiðleikum. Þessum börnum hafði verið vísað úr skóla og sum biðu þess að komast annað. Eyjólfur og aðferð hans við að ná til barnanna þótti einstök, þar sem skólunum hafði gengið það illa. Umsagnir foreldra um Eyjólf og kennslu hans á þessum tíma segja líka mikla sögu, en þar kemur fram að til Eyjólfs hafi drengirnir alltaf getað leitað, hann hafi unnið traust þeirra og gefið þeim trú á sjálfa sig þegar öll sund virtust lokuð og sömuleiðis verið stuðningur við foreldrana.

„Það verður samt að viðurkennast að maður var ekkert alltaf vinsæll hjá kerfinu þegar maður var að taka þessa unglingahjálp. En skólarnir vildu þá ekki og hvað átti að gera við þá? Það er ekki hægt að snúa baki við börnum af því að þau eiga í erfiðleikum. En vissulega gat þetta líka reynt á manns eigin fjölskyldu, að þarna var alltaf fullt af fólki, á heimili sem ég bjó á með konu minni og þremur börnum. Þetta gat komið niður á fjölskyldunni þótt maður hafi ekki skilið það sjálfur. Maður var svo uppfullur af einhverjum lífsþrótti og orku. Ég ólst hins vegar sjálfur upp við það að mitt heimili var félagsmiðstöð þar sem allir voru alltaf velkomnir, svo að mannmergð á heimili var ekki nýtt fyrir mér. Skapgerð mömmu var þannig að hún var föst fyrir en mátti þó ekkert aumt sjá. Ég ímynda mér að ég sé svolítið líkur henni,“ segir Eyjólfur.

Trúir ekki á refsingar

Hvað hafðirðu að leiðarljósi í þinni kennslu og hvernig náðirðu árangri með börn sem fáir höfðu trú á?

„Fyrst og fremst að fólk fengi trú á sjálft sig. Að það gæti. Því það geta þetta allir og það er enginn vonlaus. Það skipti líka miklu máli að vera samkvæmur sjálfum sér, segja ekki eitt í dag og annað a morgun. Þannig var ég með aga og strangari fyrst en dró svo úr. Ég passaði líka að lofa ekki upp í ermina á mér og þetta átti almennt við í kennslu minni. Ég trúði þannig á aga en ekki að henda börnum út úr tímum eða refsingar og það fór aldrei neinn nemandi fram á gang. Ég lagði mikla áherslu á félagslegu atriðin og að reyna að átta mig á því hvernig krökkunum leið og hvað það var sem olli líðan þeirra, en ekki afgreiða þau eða foreldra þeirra bara sem vandamál,“ segir Eyjólfur.

Eyjólfur hefur haldið vel utan um ýmislegt sem nemendur hans og foreldrar þeirra skrifuðu honum um kennsluna og hann segir að það láti honum eiginlega betur að láta blaðamann sjá það en að fara ofan í saumana sjálfur á því sem hann gerði. Það er forvitnilegt að glugga í það og upplýsandi og hefur krökkunum greinilega þótt þessi maður litríkur sem „kom fram við krakkana sem vini sína“ eins og einn orðar það.

Aðalgrein Eyjólfs var íslenska og þegar hann kenndi í Snælandsskóla í Kópavogi voru meðaleinkunnir nemenda í samræmdu prófunum í faginu með þeim hæstu á landinu og mörg skrif nemenda hans bera því vitni að hann vakti áhuga þeirra á móðurmálinu. Hann þótti líka litríkur og í seinni tíð skemmdi það ekkert fyrir að vera „pabbi Magga Scheving“ – sumum þótti það mjög spennandi. Einn nemandinn skrifaði: „Þú ert ekki tilbúinn til að gefast upp á mönnum sem hinir kennararnir leiða hjá sér og stimpla hann „loser“, nei, þú verðlaunar svona menn fyrir að standa sig. Það þykir mér bara mjög gott.“

Fékk berkla og nýr kafli hófst

Eyjólfur var enn að kenna þegar nýr kafli tók við í lífi hans og hann ákvað að stofna Höndina, árið 2005.

„Þetta hófst eiginlega með því að ég lenti sjálfur í þeim hremmingum að ég fékk berkla en þegar það loksins fannst út hvað var að hrjá mig heilsufarslega var ég á berklalyfjum í heilt ár. Ég fór á Reykjalund og kynnist þar meðal annars manni sem var þarna vegna veikinda, gat varla gengið nema tvö skref. Hann talaði um að hann langaði svo að gera eitthvað en gæti ekki fengið neins staðar vinnu, hann þráði í raun ekkert meira en að fá eitthvað að starfa. Fyrsta verk mitt þegar ég kom út af Reykjalundi var að fara til Jóns Júlíussonar, eiganda Nóatúns, og spyrja hann hvort hann gæti ekki tekið þennan mann í smá vinnu, þrjá tíma á dag. Hann réð hann og nokkrum árum seinna var hann kominn í fulla vinnu. Vinnan hefur lækningamátt, að fólk fái hlutverk. Það rann upp fyrir mér hversu mikilvægt það væri að fólk gæti fundið tilgang í lífinu. Að það gæti líka lagt lið. Mig langaði að stofna samtök fyrir fólk sem liði illa, andlega og líkamlega.“

Mannúðar- og mannræktarsamtökin Höndin undu hratt upp á sig. Samtökin urðu fyrst og fremst vettvangur fólks til sjálfstyrkingar og samhjálpar þar sem fólk fetar fyrstu skref sín til nýs lífs eftir ýmis áföll, þar sem það er bæði aðstoðað við að byggja upp félagslega færni og atvinnuþátttöku. Kjörorðið var „Hver og einn skiptir máli – allir með.“

Verkefnin á þessum 12 árum hafa verið margs konar og eiginlega engin tvö eins. Sjálfstyrkingarfundir í Áskirkju og gönguhópur hafa verið fastur liður og boðið er upp á heimsóknir til eldra fólks og þeirra sem eru einmana. Þessar heimsóknir hafa talið nokkur hundruð á ári, en á heimili þeirra Eyjólfs og Helgu hafa borist símtöl frá skjólstæðingum Handarinnar, mörg á dag. Helga hefur séð um fyrirspurnir og svör, sem eru um 2.000 á ári. Þau hafa tekið á móti skjólstæðingum sínum á heimili sínu, í Áskirkju og á heimilum fólks sem treystir sér ekki til að fara út í bæ og heimsótt það á sjúkrahús. Oft snýr hjálpin að flóknum lögréttindamálum, húsnæði og atvinnu og hafa starfsmenn Handarinnar stigið inn í ótrúlega flóknar og erfiðar aðstæður. Þessi þjónusta hefur alla tíð verið ókeypis, en auk þessarar persónulegu hjálpar hafa samtökin staðið fyrir fyrirlestrum og fræðslu.

Aðeins fjórir við jarðarför

„Yfir það heila höfum við mikið verið að berjast fyrir fólk sem á fáa sem enga að. Ég hef verið í jarðarför skjólstæðings þar sem aðeins fjórir voru viðstaddir. Þess vegna hafa verkefnin oft verið mjög persónuleg. Einn sem ég barðist fyrir var mjög líkamlega veikur, fór og leitaði sér læknisaðstoðar en var alltaf sendur heim. Einn daginn barði ég í borðið, hann þyrfti að fá meiri aðstoð en að vera sendur heim. Málið er að veikt fólk á erfitt með að standa í slíku, það getur ekki gert það. Í þessu starfi hefur maður séð að framkomu við einstæðinga er oft ábótavant og kerfið hefur ekki burði til að hjálpa þeim. Þar höfum við stigið inn í,“ segir Eyjólfur.

Höndin hefur verið stór hluti af lífi skjólstæðinga þeirra en vissulega líka verið stór hluti af heimilislífi þeirra Eyjólfs og Helgu í Breiðholti þar sem heimsóknir og símhringingar hafa verið daglegt brauð. Sjálfboðaliðar hafa starfað með samtökunum, 10-15 talsins, og hafa þau í gegnum tíðina meðal annars hlotið viðurkenningar fyrir starf sitt, svo sem Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins.

Eyjólfur segir að það sem hái þó samtökum eins og Hendinni sé að þegar unnið sé með einstæðingum sé starfið ekki eins sýnilegt. Til dæmis hlaupi ekki margir í Íslandsbankamaraþoni fyrir samtök sem vinni fyrir einstæðinga því þeir eigi ekki aðstandendur sem hlaupi fyrir þá og séu of veikir til að hlaupa. Eyjólfur nefnir þetta því hann segir að í fyrsta skipti í öll þau ár sem Höndin hafi verið starfandi sjái þau ekki fram á hvernig þau eigi að geta sinnt starfi sínu miðað við þann styrk sem samtökin fengu í ár frá ríkinu. Höndin fékk eina milljón í velferðarstyrk frá Velferðarráðuneytinu, en styrkirnir eru veittir árlega vegna afmarkaðra verkefna á hendi félagasamtaka sem starfa meðal annars á sviði endurhæfingar.

„Ég er eiginlega stunginn í hjartastað. Við fengum eina milljón í styrk frá ríkinu, sem dugar ekki til undirstöðukostnaðar til að halda Hendinni gangandi. Þetta er mikill munur frá því sem hefur áður verið, þar sem við höfum til dæmis fengið styrk upp á 3,5 milljónir sem hefur dugað til að halda þessu gangandi. Þetta eru afar flókin verkefni og ólík þar sem við erum að sinna verkefnum sem margir veigra sér við að stíga inn í. Það er eins og það sé enginn skilningur á því hvað Höndin hefur verið að gera og hvað hún hefur komið miklu áleiðis. Samtökin hafa verið eins og barnið manns og maður vill vera í þessu og hjálpa, og þess vegna er þetta sárt,“ segir Eyjólfur, sem er ekki vongóður um að þessu verði breytt. „Manni líkar illa þegar menn verða svo nánasarlegir að setja eina milljón í það sem maður hefur verið að gera af lífi og sál. Og lækka ellilífeyrinn um leið.“

Við höfum farið vítt og breitt yfir sögu Eyjólfs, sem er merkileg fyrir sérstaklega þær sakir hversu stór hluti heimilis hans hefur verið lagður undir að hjálpa, ungum sem öldnum. Það hefur ekki breyst frá því að hann aðstoðaði skóladrengi í stofunni heima hjá sér, þótt í seinni tíð hafi áherslan verið á þá sem eldri eru.

„Þótt maður sé sár yfir þessu eins og stendur er ekkert sem skyggir á þá gleði sem er mín mestu verðmæti; að hitta gamla nemendur mína og finna að þeim líði vel. Það er ekkert sem gefur gömlum kennara jafnmikið og endurfundir við þá,“ segir Eyjólfur og fylgir til undirritaðri til dyra, sem fékk til gamans símanúmer hjá gömlum nemenda Eyjólfs og ætlar, fyrir forvitnissakir, aðeins að heyra í honum.

bottom of page