top of page
Maður er manns gaman

 

Morgunblaðið

11. nóvember 2007

eftir Bjarna Ólafsson

 

 

Bjarni Ólafsson fæddist í Reykjavík 1941. Að loknu gagnfræðaprófi fór hann til Bandaríkjanna til náms þar sem hann útskrifaðist sem flugvirki frá Spartan School of Aeronautics 1961.

 

Bjarni starfaði hjá Flugfélagi Íslands, Pan American, síðar Loftleiðum, síðar Flugleiðum og Icelandair. Eiginkona Bjarna er Guðrún Gríma Árnadóttir hárgreiðslukona og eiga þau þrjár dætur og tvo dóttursyni.

 

Stuðningsfélagið Höndin heldur opinn skemmtifund næstkomandi þriðjudag, 13. nóvember, undir yfirskriftinni „Maður er manns gaman“.

 

Bjarni Ólafsson er meðlimur í Hendinni og segir frá dagskránni sem er í boði: „Við fáum til okkar Sigurð „Sigga Storm„ Ragnarsson veðurfræðing og Helga Seljan blaðamann til spjalls, Jón Júlíusson leikari verður með upplestur, og Sigurður „Diddi“ Friðriksson hóteleigandi flytur erindið Aldrei glaðari en nú,“ segir Bjarni, og bætir við að félagar úr lögreglukórnum muni syngja fyrir gesti auk þess sem boðið verður upp á léttar kaffiveitingar.

 

Höndin eru víðtækur stuðningshópur: „Við leitumst við að hjálpa fólki sem lent hefur í hverskyns vandamálum. Til okkar leitar m.a. fólk sem glímt hefur við þunglyndi og aðra andlega örðugleika, eða orðið fyrir skakkaföllum í lífinu,“ segir Bjarni. „Félagið er opið öllum sem þurfa á styrk og stuðningi að halda og eru reiðubúnir að tala um og vinna úr sínum vandamálum.“

 

Trúnaður og samkennd

 

Minni stuðningshópar hittast vikulega, þar sem fólk með svipaða reynslu ræðir saman í umhverfi þar sem trúnaður og samkennd eru höfð að leiðarljósi: „Félagsskapurinn Höndin samanstendur af velviljuðu fólki sem sjálft hefur lent í vandræðum á lífsleiðinni, og langar að hjálpa öðrum í sömu sporum. Starfið er allt unnið af sjálfboðaliðum, og er kostnaður í lágmarki. Mánaðarlega höldum við svo stærri fundi, eins og fundinn næsta þriðjudag, þar sem dagskráin er á léttu nótunum um leið og við reynum að varpa ljósi á mikilvægt málefni,“ segir Bjarni. „Eins og yfirskrift fundarins á mánudag gefur til kynna munum við þar fjalla um mannleg samskipti og stuðning okkar hvert við annað.“

Á slóðinni www.hondin.is má finna ítarlegri upplýsingar um starf félagsins, upplýsingar um sjálfsstyrkingu og fréttir af viðburðum á vegum Handarinnar.

 

Fundur þriðjudagsins er haldinn í neðri sal Áskirkju og hefst kl. 20.30. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

 

bottom of page