top of page
Óviðunandi aðstæður

 

 

Morgunblaðið

19. apríl 2008

Ritstjórnargrein

 

 

Árni Tryggvason leikari skrifaði grein hér í Morgunblaðið í gær, sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Grein ÁrnaTryggvasonar hefst á þessum orðum: „Ég þurfti að dvelja nokkra daga á geðdeild 32C Landspítalans, en er nú búinn að ná mér upp á grasið aftur, með góðri fagmennsku læknis og starfsfólks, sem þar er og er til fyrirmyndar.“

 

Hversdagleg byrjun á blaðagrein en samt með þeim hætti, að enn eru þeir margir, sem treysta sér ekki til að tala á þennan veg, þótt mikið hafi breytzt á rúmum áratug í þeim efnum.

 

Í grein Árna Tryggvasonar segir: „Þá finnst mér einnig, að aðbúnaður sjúklinga sé algjörlega óviðunandi og kannski helzt á þann veg, að

aðgreining á mjög alvarlega veiku fólki og þeim sem ekki eru jafn illa haldnir er ekki nægileg. Þetta tel ég að bitni óhjákvæmilega á sjúklingunum, sem næðu eflaust fyrr bata, ef allur aðbúnaður, bæði sjúklinga og

starfsfólks væri betri.“

 

Árni Tryggvason víkur hér að algeru lykilatriði í starfsemi geðdeilda, en sem ekki hefur verið nægilegur gaumur gefinn.

 

Margir þeirra, sem hafa haft kynni af starfsemi geðdeilda sem gestir til þess að heimsækja sjúklinga, hafa spurt sig þeirrar spurningar, hvort nærvera mikið veikra sjúklinga á geðdeildum gæti haft neikvæð áhrif á þá, sem eru á batavegi.

 

Hér lýsir þjóðkunnur leikari reynzlu sinni sem sjúklings á geðdeild á þann veg, að svo sé.

 

Orð hans hljóta að vega þungt. Það er áleitin spurning, sem sett hefur verið fram áður hér á síðum Morgunblaðsins, hvort nauðsynlegt sé að koma upp einhverju millistigi milli dvalar á geðdeild og heimilis fyrir þá, sem náð hafa nægilegum bata til þess að útskrifast af geðdeildum en ekki nægilegum bata til þess að fara heim og taka því daglega áreiti, sem fylgir hversdagslífi fólks.

 

Þessu máli hefur verið hreyft áður hér á þessum vettvangi án þess að hafa fengið nokkrar undirtektir. Nú gengur Árni Tryggvason leikari fram á sjónarsviðið og vekur athygli á þessu lykilatriði af nokkrum þunga. Má búast við að þeir sem mesta ábyrgð bera á þessu sviði bregðistvið?

 

Framfarir hafa orðið miklar í geðlækningum og í meðferð geðsjúkra. Grasrótarhreyfingar hafa risið upp sem skila merkilegu starfi. En þarna er gat í kerfinu, sem Árni Tryggvason bendir á.

 

Það er til mikið af ónotuðu húsnæði í þessu landi. Er ekki prófandi að gera a.m.k. tilraun með að starfrækja slíkt millistig á milli geðdeildar og heimilis og sjá hvort reynslan verður sú að tilefni sé til að færa út kvíarnar?

 

Árna Tryggvasyni leikara ber að þakka fyrir að hreyfa þessu máli. Til þess þurfti kjark.

 

bottom of page