top of page
Börn síns tíma
Er Ísland barnvænt samfélag?

 

 

Morgunblaðið

24. september, 2006

 

Höfundur: Orri Páll Ormarsson

 

 

 

Gera má því skóna að vægi fjölskyldunnar hafi minnkað með breyttum samfélagsháttum á Íslandi. Fyrirvinnurnar á flestum heimilum eru nú tvær í stað einnar áður og vinnudagurinn að jafnaði langur.

 

Gera má því skóna að vægi fjölskyldunnar hafi minnkað með breyttum samfélagsháttum á Íslandi. Fyrirvinnurnar á flestum heimilum eru nú tvær í stað einnar áður og vinnudagurinn að jafnaði langur. Fyrir vikið hafa foreldrar minni tíma til að sinna börnum sínum. Á móti kemur að efnahagslegar aðstæður fjölskyldna hafa líklega aldrei verið betri. Hvað finnst foreldrum um þessa breyttu mynd? Hvaða áhrif hefur þetta á börnin? Þurfa þau að finna sér nýjar fyrirmyndir? Leita þau í þeim tilgangi á náðir fjölmiðla og jafnaldra? Hneigjast þau í auknum mæli til agaleysis? Hvernig bregðast skólarnir við þessu? Morgunblaðið mun með þessari grein og fleiri greinum á næstunni leita svara við spurningunni: Er Ísland barnvænt samfélag?

Fá máltæki eru íslensku þjóðinni tamari en „heima er best“ og „vinnan göfgar manninn“. Þau eru í eðli sínu mótsögn. „Heima er best“ vísar til þess að flesta dreymir um fjölskyldulíf og fallegt heimili. "Vinnan göfgar manninn" er aftur á móti staðfesting á dugnaði og sjálfsbjargarviðleitni þjóðar sem um aldir hefur boðið höfuðskepnunum byrginn. Sjaldan eða aldrei hefur togstreitan milli þessara tveggja póla, vinnu og heimilis, verið meiri á Íslandi. Það er gömul saga og ný að heimilisfeður vinni myrkranna á milli. Þeir voru um langt skeið yfirleitt eina fyrirvinnan og tekjuöflunin hvíldi á þeirra herðum. Hlutverk heimilismóðurinnar hefur aftur á móti tekið miklum breytingum á umliðnum áratugum. Fram eftir síðustu öld voru þær upp til hópa heimavinnandi en í dag er atvinnuþátttaka íslenskra kvenna með því mesta sem um getur í heiminum og í langflestum nútímafjölskyldum eru báðir foreldrar virkir á vinnumarkaði.

Það má heldur ekki gleyma því að hlutfall barna sem alast upp hjá einstæðu foreldri hefur hækkað á undanförnum áratugum. Samkvæmt tölum frá 2004 er atvinnuþátttaka karla á höfuðborgarsvæðinu 84% og kvenna 77%. Vinnutíminn er líka langur í alþjóðlegu ljósi, 46 tímar á viku hjá körlum og 36 tímar hjá konum. Önnur breyting er sú að dregið hefur úr mikilvægi þess að eignast afkvæmi. Um langt skeið hefur það verið svo að hér á landi fæðast fleiri börn á hverja konu en í nágrannalöndunum, auk þess sem íslenskar mæður eru að jafnaði yngri þegar þær eiga sín börn. Á undanförnum árum hefur á hinn bóginn dregið saman með Íslandi og samanburðarlöndunum. Barneignartíðni hefur lækkað ört og meðalaldur mæðra sem eru að eiga sitt fyrsta barn hefur hækkað.  Enginn til að sjóða ýsuna. Leiða má að því líkur að þessi þróun sé m.a. afleiðing af aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði. Þær eru ekki lengur heima til að hlúa að börnum og búi og þar af leiðandi eru forsendur fyrir barneignum breyttar.

 

Af þeim sökum eignast hjón að meðaltali færri börn en áður. Foreldrar hafa líka minni tíma fyrir börn sín og heimili. Þegar báðir aðilar snúa heim eftir langan og strangan vinnudag getur heimilishald á köflum virkað íþyngjandi. Getur verið að síðustu kraftarnir séu oftar en ekki nýttir til að elda matinn og taka til frekar en að verja tíma með börnunum? Það er af sem áður var. Íslensk börn hafa raunar vanist því gegnum áratugina að sjá lítið af feðrum sínum vegna vinnu en aðgengi þeirra að
mömmu og e.t.v. ömmu var löngum gott. Tekið var á móti þeim með soðinni ýsu eða nýsteiktum kleinum þegar þau komu heim úr skólanum. Í dag halda börn ýmist rakleitt í dagvistun eða þau koma að tómu heimili. Hugtakið „lyklabarn“ hefur fyrir margt löngu rutt sér til rúms. Hvað taka þau þá til bragðs? Leita líklega til vina og kunningja ellegar láta sjónvarpið eða tölvuna stytta sér stundir.

Á móti þessari skerðingu á samverustundum fjölskyldunnar kemur að veraldlegt ríkidæmi hefur ekki í annan tíma verið meira, gildir þá einu hvort horft er til heimilanna eða samfélagsins í heild.  Höfum það mjög gott Við þá staðreynd staldrar umboðsmaður barna, Ingibjörg Rafnar. „Efnahagslegar aðstæður hér á landi eru með því besta sem gerist í heiminum. Í því tilliti hafa íslensk börn aldrei haft það betra,“ segir hún. „Við búum við góða leikskóla og öflugt grunnskólakerfi. Heilsugæsla er óvíða betri í heiminum og ungbarnadauði hvergi minni. Þjónusta við börn er á mjög háu stigi. Að því leyti er Ísland án efa barnvænt samfélag. Það væri vanþakklæti að halda öðru fram.“


Ingibjörg segir velmegunina blasa við. "Það var hérna fundur umboðsmanna barna á Norðurlöndunum í sumar og kollegar mínir höfðu orð á því hvað velmegunin virtist mikil. Það kom þeim á óvart hvað við höfum það gott." Ingibjörg telur eigi að síður brýnt að efnishyggjan fari ekki úr böndum. "Menn vilja eignast allt og það helst í gær. Ég ætla svo sem ekki að setja mig á háan hest, ég hef tekið þátt í þessari efnishyggju eins og aðrir. Ég er samt ekki frá því að kynslóðin sem nú er að koma út á vinnumarkaðinn sé meira efnishyggjufólk en mín kynslóð. En hver ber ábyrgð á því? Við. Þannig að við þurfum að líta í eigin barm, hvert og eitt."


Meiri virðing og tillitssemi


Efnahagslegar aðstæður íslenskra barna eru almennt ákjósanlegar en þegar kemur að tilfinningalegu atlæti telur Ingibjörg að við gætum gert betur. „Við Íslendingar erum óhemju duglegt fólk. Við værum ekki hérna annars, þrjú hundruð þúsund hræður, á hjara veraldar. Við vinnum mikið og höfum fyrir vikið kannski ekki alltaf nægan tíma fyrir börnin okkar. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands dvelur 71% barna átta klukkustundir eða lengur á leikskóla á degi hverjum en það er lengri tími að meðaltali en hjá starfsfólkinu. Heilt á litið held ég að við gætum bætt okkur hvað þetta varðar, sýnt börnum meiri virðingu og tillitssemi. Gefið þeim meiri tíma. Þá er ég ekki bara að tala um foreldra barnanna, heldur samfélagið allt. Fjölskyldan er auðvitað grunneining samfélagsins og því eðlilegt að þessi naflaskoðun hefjist þar. Atvinnulífið og hið opinbera má samt sem áður ekki skorast undan sinni ábyrgð og þá er ég ekki bara að tala um fjárframlög. Þetta er líka spurning um viðhorf og tillitssemi.“


Ingibjörg hvetur foreldra til að verja meiri tíma með börnum sínum, tala við þau og fræða. Þá megi foreldrar ekki gleyma hlutverki sínu sem fyrirmynd barnsins. „Við erum fyrirmynd og það er ekki nóg að fræða börnin um hvað er vont og óhollt ef við förum ekki eftir því sjálf. Börn eru einstaklega næm á það og atferli þeirra, viðhorf og afstaða mótast af þeim sem standa þeim næst.“


Hraðinn er stóra vandamálið

 

Það getur verið þrautin þyngri að sameina erilsamt starf og heimilishald. Margir foreldrar eru fyrir vikið í stöðugu kapphlaupi við tímann. Samfélagið fer ekki varhluta af þessu. Hraðinn hefur að líkindum aldrei verið meiri.


Eyjólfur Magnússon Scheving grunnskólakennari segir þetta áhyggjuefni. „Íslensk börn hafa ekkert breyst í áranna rás. Þau vilja hafa aga, öryggi og skjól. Nálgunin nú til dags er hins vegar önnur. Stóra vandamálið í samfélaginu sem við búum í er hraðinn. Það eru allir að flýta sér, fullorðnir og börn. Foreldrar vinna mikið og eru fyrir vikið alltaf á síðasta snúningi, allt þarf að gerast í gær. Af þessum sökum eru börn upp til hópa rótlaus í dag. Það eru alltof mikil læti í kringum þau og alltof mikið framboð af afþreyingu. Börnin vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga.“


Góðir hlutir gerast hægt og Eyjólfur segir að fólk verði að gefa sér tíma til að staldra við, hlúa að sjálfu sér og því dýrmætasta sem við eigum – börnunum.


„Ég er alls ekki að skella skuldinni á heimilin. Foreldrar reyna að sjálfsögðu að gera sitt besta. Ég er meira að segja sannfærður um að ungt fólk hugsar að mörgu leyti betur um börnin sín í dag en fyrir fjörutíu eða fimmtíu árum. Fólk vann líka mikið þá. Feður sinna börnum sínum t.d. meira í dag. Það er þjóðfélagið sem leggur þessar kvaðir á herðar fólki. Það krefst þess að allir séu á útopnu. Það er ekki nóg fyrir barn að leggja bara stund á íþróttir með námi, það verður líka að vera í tónlistarnámi, skátunum og helst einhverju fleiru. Svo er það öll afþreyingin, bíó og tónleikar, að ekki sé talað um skemmtanir og útihátíðir.“


Þjónar en ekki uppalendur

 

Eyjólfur segir að fyrir vikið séu foreldrar oft og tíðum frekar í hlutverki þjónsins en uppalandans. „Foreldrar halda að þeir eigi að vera eins og útspýtt hundskinn. Þeir eru fyrst og fremst í hlutverki bílstjóra sem skutlar og sækir barnið á víxl. Er það ekki orðið eitthvað öfugsnúið þegar foreldrar eru sífellt í þjónustuhlutverki fyrir félagasamtök og stofnanir? Þetta er að verða eins og hjá enskri hirð í gamla daga. Börnin búa á efri
hæðinni en foreldrarnir á þeirri neðri.“


Það er ekkert nýtt að Íslendingar hafi í mörg horn að líta en Eyjólfur segir að fyrr á tíð hafi eigi að síður gefist tími til að tala saman eftir kvöldfréttir eða yfir sunnudagssteikinni. „Ég efast um að það gerist lengur. Núorðið eru allir heimilismenn með sér sjónvarp. Og sunnudagssteikin? Veit ungt fólk um hvað ég er að tala?“


Eyjólfur óttast að alltof margar fjölskyldur hafi ekki tíma til að njóta samvista og kunni það hreinlega ekki lengur. Hver sitji í sínu horni og sinni sínum hugðarefnum. „Maður er ekki lengur manns gaman.“ Óþolinmæði er annar ókostur okkar tíma, að mati Eyjólfs. „Gulrótin verður alltaf að koma strax. Þetta læra börnin af fullorðna fólkinu. Það er engin biðlund. Menn virðast búnir að gleyma því að enginn verður óbarinn biskup. Að hafa þarf fyrir hlutunum.“


Áhrif fjölmiðla og jafnaldra

 

Af minnkandi samskiptum foreldra og barna leiðir að áhrifavöldum barna hefur fjölgað á síðustu árum. Að áliti Ingibjargar Rafnar eru hinir nýju áhrifavaldar ekki síður mikilvægir. „Ef við lítum þrjátíu ár aftur í tímann eru foreldrarnir í fyrsta sæti, svo koma skólarnir og jafnvel afi og amma. Nú hefur þetta breyst á þann veg að jafnaldrar hafa meira vægi og ekki síður fjölmiðlar. Börn búa fyrir vikið við allskonar áreiti sem foreldrar hafa oft og tíðum lítið vald yfir. Það er atriði sem við getum skoðað og að einhverju marki tekið á.“


Ingibjörg segir brýnt að fjölmiðlar geri sér grein fyrir vaxandi áhrifum sínum á börn og ungmenni. „Það er svo merkilegt að fjölmiðlar eru alveg ógurlega viðkvæmir fyrir því að vera nefndir í þessu sambandi. En þeir verða að þola gagnrýni eins og aðrir. Tökum bara áhrifamesta miðilinn þegar börn eiga í hlut, sjónvarpið. Það tekur að mínu mati ekki nægilegt tillit til ungra barna. Það er að einhverju leyti því að kenna að útvarpslöggjöfin gæti verið strangari. Ég hef bent á það að sú grein í útvarpslögunum sem snýr að vernd barna, 14. greinin, er ekki eins ákveðin og haldgóð ég vildi sjá. Þegar lögin voru endurskoðuð árið 2000 voru þau löguð betur að tilskipun Evrópusambandsins en ég hefði viljað sjá menn taka þá tilskipun upp orðrétt eins og Norðmenn hafa gert.“


Ekki gróft og ljótt efni á daginn

 

Ingibjörgu þykir sjónvarpið geta sýnt ungum börnum þá tillitssemi að vera ekki með gróft og ljótt efni á dagskrá fyrr en eftir ákveðinn tíma á kvöldin. Telur hún heppilegt að miða við klukkan níu í því sambandi, líkt og í Bretlandi. „Mér finnst sjálfri að þetta hljóti að vera auðvelt í framkvæmd og engin fórn fyrir fjölmiðla. Í fréttum getur auðvitað verið ljótt efni en foreldar vita það fyrirfram og geta fylgst með og verndað börnin. En foreldrar eiga ekki að þurfa að vera á vaktinni öllum stundum og fyrir klukkan níu á kvöldin á að vera óhætt að hafa opið fyrir sjónvarp án þess að börnin skaðist.“


Ingibjörg nefnir dagskrárkynningar sérstaklega. „Þar birtast ljótar senur á ýmsum tímum úr myndum sem á að sýna að kvöldlagi. Eins auglýsingar frá kvikmyndahúsum. Fyrir þessu eru börnin algjörlega berskjölduð. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á þetta. Svo er líka verið að sýna efni á miðjum degi sem klárlega er ekki við hæfi barna. Þá eru börnin kannski ein heima. Þó þetta sé e.t.v. á stöðvum sem foreldrar eiga að geta bannað börnum að horfa á er málið ekki alltaf svo einfalt.“


Ingibjörg vill sjá á þessu tekið. „Börn eiga að fá að vera börn og það er engin ástæða til að hræða þau með þessum hætti. Ég er ekki sérfræðingur í þroskasálfræði en er sannfærð um að við þetta skapast hjá þeim kvíði og andleg vanlíðan sem getur heft þroska barna.“


Andleg vanlíðan er sífellt að verða mönnum betur ljós í hinum vestræna heimi, bæði vegna betri greiningar og aukinnar umræðu, og margir halda því fram að hún fari vaxandi. Ekki síður hjá börnum en fullorðnum. „Það að þetta á einkum við í hinum efnuðu vestrænu samfélögum segir sína sögu,“ segir Ingibjörg.


Hinn áhrifavaldurinn sem Ingibjörg nefnir eru jafnaldrarnir. „Hluti af skýringunni á því hvers vegna áhrif vina og félaga eru meiri í dag er vafalaust sú að foreldrar eru ekki eins mikið heima og áður. Ég var alin upp við það að móðir mín var heima og sömu sögu má segja um marga á mínu reki. Þetta er mun sjaldgæfara í dag. Ég vil alls ekki koma upp samviskubiti hjá ungu fólki. Þetta er nútíminn og ég tók sjálf þátt í því að móta hann, með því að mennta mig og fara út á vinnumarkaðinn, eins og ég vildi. Það breytir því þó ekki að áhrif okkar foreldranna eru minni en áður. Áhrif jafnaldranna aukast eftir því sem barnið verður eldra en þessara áhrifa er farið að gæta í sífellt yngri aldursflokkum.“


Heimilið og heimurinn

 

Að dómi Eyjólfs er gríðarlega mikilvægt fyrir börn að læra að vinna og hegða sér í hóp. „Það er engin tilviljun að Forn-Grikkir kenndu alltaf í hópum. Ef menn ætla að virka í samfélaginu verða þeir að kunna að vinna saman í hóp. Við erum allsstaðar í hópum, á heimilinu, í skólanum, úti í samfélaginu. Í minni æsku lærði maður líka hóphegðun í sveit og vinnu.“ Eitt af grundvallaratriðum hópsamvinnu er að hjálpa næsta manni. Eyjólfur er þeirrar skoðunar að þessu sé víða ábótavant á heimilum. Og áhrifin eru keðjuverkandi. „Ef börn læra ekki að hjálpa til á heimilinu og í skólanum eru þau ekki líkleg til að veita öðrum aðstoð þegar út í þjóðfélagið er komið. Félagslegri hæfni er ábótavant. Það kemur út á eitt, heimilið og heimurinn.“


Með þessu er Eyjólfur ekki að segja að óæskilegt sé að hleypa börnum út fyrir hópinn. Þvert á móti sé nauðsynlegt að gera það líka. „Auðvitað verða börn að fá svigrúm til að komast út fyrir hópinn svo hæfileikar þeirra geti blómstrað. En hópeflið má ekki sitja á hakanum.“ Hann segir fullorðna gera alltof mikið af því að leika við börn og stjórna þeim. Fylgjast þurfi með börnum og leiðbeina þeim - en ekki stjórna.


Of miklir peningar í íþróttum

 

Eyjólfur var sjálfur mikill íþróttamaður á yngri árum og segir það engum vafa undirorpið að íþróttir geti verið ákjósanlegt tæki til hópeflingar. Þá agi þær börn og þroski ef rétt er haldið á málum. „Hér áður var yfirleitt ekki greitt fyrir íþróttaþjálfun. Menn tóku slíkt að sér af áhuga. Það hefur breyst. Í dag myndi ekki hvarfla að nokkrum manni að taka að sér þjálfun án þess að þiggja laun fyrir. Auðvitað er best að skóli og íþróttafélög vinni saman og að starfinu sé stjórnað af menntuðum kennurum sem jafnframt eru góðir leiðtogar.“


Eyjólfur hefur efasemdir um að íþróttahreyfingin sé á réttri leið. „Það eru alltof miklir peningar komnir í spilið. Félögin eru mörg hver orðin að fyrirtækjum, þar sem hálfatvinnumennska er stunduð, og æfingagjöld sem innheimt eru vegna barna- og unglingastarfs fara örugglega að verulegu leyti í rekstur meistaraflokkanna. Það jafnast fátt á við íþróttaiðkun - en það er lykilatriði að rétt sé að málum staðið.“


Aukið agaleysi hjá ungmennum

 

Mikið hefur verið rætt og ritað um aukið agaleysi í samfélaginu hin síðari misseri, ekki síst meðal barna. Ingibjörg segir þá umræðu ekki tilefnislausa. „Ég hugsa að það sé alveg rétt að aukið agaleysi birtist í framgöngu barna og unglinga. Ég held hins vegar að það tengist þeim ekki sérstaklega. Agaleysi hefur aukist í öllu samfélaginu og jafnvel í stjórnkerfinu sjálfu. Það er eitthvað sem við Íslendingar þurfum að fara að skoða og bæta úr. Það er svo aftur stóra spurningin, hvar á að byrja?“


Ingibjörg hefur tilfinningu fyrir því að agaleysi á Íslandi hafi smám saman verið að magnast á mörgum undanförnum árum. „Það skýrist að hluta til af því hvað einstaklingshyggjan er rík hjá okkur. Svo er það einkennandi fyrir okkur Íslendinga að við höfum alltaf rétt fyrir okkur, hver um sig, og eigum alltaf réttinn. Ég held t.d. að fáar þjóðir fari jafn oft fyrir dómstóla með sín mál.“


Ingibjörg segir óhollt fyrir ungmenni að alast upp við agaleysi. „Máltækið „erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja“ er sígilt og það er mín skoðun að brýnt sé að kenna börnum strax umgengnisreglur sem duga best þegar út í lífið er komið. Regluverkið er ekki til fyrir sjálft sig heldur hefur það tilgang. Hann er sá að setja okkur reglur um mannleg samskipti til að gera þau auðveldari, öruggari og árangursríkari og tryggja jafnræði. Við eigum að ala börnin okkar upp í kærleiksríkum aga. Það kemur þeim best í lífinu.“


Virðingarleysi gagnvart lagabókstafnum

 

Ingibjörg óttast að ákveðið virðingarleysi sé komið upp gagnvart lagabókstafnum. Það hafi sýnt sig víðar en á Íslandi. „Þetta er mjög áberandi í umferðinni. Þannig fækkar þeim stöðugt sem gefa stefnuljós. Það er eins og engum komi við hvert maður er að fara. Ég veit það sjálf og það er nóg. Þetta er hugsunarhátturinn. Reglur um stefnuljós eru hins vegar gefnar út til að auka öryggi í umferðinni. Það vill gleymast.“


Hvað varðar börn og unglinga segir Ingibjörg ákveðin tæki vera til staðar, skóla og leikskóla, sem auðveldi mönnum að taka á þessu agaleysi. „Það á að vera tiltölulega auðvelt að taka á þessu á þeim vettvangi í samstarfi við foreldra. Við þurfum m.a. að huga að því í þessu, eins og öðrum mannlegum samskiptum, að skilgreina betur ábyrgð og hlutverk aðila. Það er eitt af því sem okkur Íslendingum er ekkert sérlega tamt. Sumum finnst það bara formalismi og argasti óþarfi.“

bottom of page